LEIKSKÓLAMÁL
Það er leikskólavandi í Reykjavík. Biðlistar eftir leikskólaplássi standa í stað og meðalaldur barna við inngöngu lækkar ekki. Samhliða fer dagforeldrum fækkandi. Fjölskyldur eru úrræðalausar í kjölfar fæðingarorlofs og verða fyrir gríðarlegu tekjutapi og streitu.
3,9 milljónir á hverja fjölskyldu
Árið 2022 birti Viðskiptaráð Íslands greiningu á þeim kostnaði sem fellur á hverja fjölskyldu sem ekki fær leikskólapláss fyrir barn sitt við 12 mánaða aldur. Var fórnarkostnaðurinn talinn nema að meðaltali rúmum 3,9 milljónum króna í tapaðar launatekjur yfir biðtímann. Má raunar ætla að útreikningurinn sé töluvert vanmat, en hann miðaði við að biðin eftir leikskólarými stæði einungis til 19 mánaða aldurs. Meðalaldur barna við inngöngu á leikskóla í Reykjavík hefur verið nær 20/21 mánuði, en jafnframt eru fjölmörg dæmi um börn sem bíða vel á þriðja aldursár eftir leikskólarými á borgarreknum leikskólum.
Lausnin hvergi í sjónmáli
Samkvæmt spá Byggðastofnunar mun börnum á leikskólaaldri fjölga um 37% milli áranna 2021 og 2026. Björtustu spár borgarinnar gera hins vegar aðeins ráð fyrir 8.385 leikskólaplássum árið 2026, sem nemur aðeins 83% af þörfinni. Engar aðgerðir hafa verið innleiddar sem hreyfa nálina í átt að fjölgun dagforeldra, hugmyndum um heimgreiðslur hefur verið hafnað og engar nýjar lausnir hafa verið kynntar. Það er því fyrirséð að lausn vandans er hvergi í sjónmáli.
Lausn leikskólavandans mun ekki liggja fyrir nema til komi breyttar áherslur og nýjar lausnir. Við þurfum skammtímaaðgerðir sem viðbragð við bráðavanda – en jafnframt langtímalausnir til framtíðar. Vandinn verður ekki leystur án kerfisbreytinga og nýrra lausna sem raunverulega þjóna þörfum fjölskyldna í borginni.
Samtal við foreldra, skólasamfélag og atvinnulíf
Á næstu misserum mun ég boða til funda með foreldrum, skólasamfélagi og atvinnulífi til að ræða mögulegar lausnir á þeim vanda sem blasir við fjölskyldum í Reykjavík. Hugmyndin er að kortleggja stöðuna og leggja drög að raunverulegum, fjölbreyttum leiðum sem staðið geta fjölskyldum til boða í kjölfar fæðingarorlofs.