top of page

Íslensk friðsæld

„Stjórnmálin leita að vanda, finna hann alls staðar, greina hann ranglega og leysa hann illa”. Svohljóðandi er þekkt tilvitnun sem lýsir takmörkuðu trausti almennings til stjórnmála. Borgarstjórn Reykjavíkur mælist með minnst traust allra stofnana hérlendis. Sannlega má heimfæra niðurstöðuna á vangoldin loforð í höfuðborginni – en ekki síður á rætna stjórnmálaumræðu.


Innan borgarstjórnar eru gífuryrði þekkt stærð í allri umræðu. Óábyrgar yfirlýsingar og vanstilltar upphrópanir kjörinna fulltrúa vekja óþarfa reiði. Það er sjálfsagt að takast á um hugmyndafræði og úrlausnarefni – en umræðan þarf að vera byggð á málefnalegum grunni. Orðum fylgir ábyrgð.


Samhliða hefur hitinn hækkað í umræðu um öryggi stjórnmálamanna. Einhverjir kalla á hert eftirlit og aukna öryggisgæslu. Fóðra óttann og ráðgera hið versta.


Þá er gott að staldra við frásögn starfsmanns sameinuðu þjóðanna í Palestínu. Sá sótti fjölmennan fund Mahmoud hershöfðingja, sem hafði unnið sér það helst til frægðar að vera yfirlífvörður forsetanna, Arafats og Abbas. Á fundinum greindi hershöfðinginn frjálslega frá sprenghlægilegri upplifun þeirra Abbas af Íslandi og þeim ótrúlegu veðrabirgðum sem þeir upplifðu um hásumar – sól, rigningu, rok og snjókomu.


Hershöfðinginn hélt til Bessastaða hvar hann hugðist yfirfara öryggismál Abbas. Við komuna mætti honum minnsta forsetahöll heims – lítið snoturt sveitabýli – og tveir menn í dyragættinni. Mennina taldi hann lífverði forsetans, en þeir reyndust forsetinn sjálfur og ritari hans – án öryggisgæslu! Því næst voru öryggismálin yfirfarin af forsetaritara og bílstjóra forseta. Yfirferðina sagði hann þá stystu á starfsævinni, en fullvissan um öryggi Abbas hafi aldrei verið meiri. Hann væri nefnilega staddur í saklausasta samfélagi heims.

Friðsældin einkennir íslenska þjóð. Sakleysið má ekki vígbúa á suðupunkti umræðunnar. Lækkum heldur hitastigið og sammælumst um að fyrirliggjandi vandi verði ekki leystur með ótta og valdi – heldur aðgát í orðum og vandaðri gjörðum. Íslenskri friðsæld.


Hildur Björnsdóttir

Borgarfulltrúi
Comentarios


bottom of page