Lítil en stórhuga þjóð á norðurhjara veraldar – vogskorinni eyju á berangri Atlantshafsins – byggði lífsbjörg liðinna tíma á væntingum um bjartari daga. Íslensk tunga ber þess víða merki, enda skírskotar tungumálið gjarnan til jákvæðni og bjartsýni. Fátt er nefnilega svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott. Bót fylgir böli hverju og öll él birtir upp um síðir.
Fáir kveðja liðið ár með söknuði. Ástvinamissir, heilsubrestur og atvinnuleysi urðu mörgum áfall. Fólk missti heimili sín, lífsviðurværið og öryggið. Úr áföllunum verður ekki lítið gert. Þjóðin hélt í óvissuför upp mikinn bratta en af bjartsýni má vona að ferðalagið framundan verði aflíðandi vegferð í átt að betri tíð. Verkefnin framundan verða krefjandi – en með réttu hugarfari má draga lærdóm og leita tækifæra. Um þetta ber dæmisagan af ferðamanninum og heimamanninum ágætt vitni.
Eftir stutta dvöl í fjallaþorpi gekk ferðamaður niður fjallshlíð í átt að sjávarþorpi. Á niðurleiðinni mætti hann heimamanni og tóku þeir tal saman. Ferðamaðurinn sagðist á leið til sjávarþorpsins og spurði við hverju mætti búast. Heimamaðurinn spurði hvaðan ferðamaðurinn væri að koma og hvernig honum hefði líkað. Ferðamaðurinn sagðist nýkominn úr fjallaþorpinu og reynslan hefði verið hrein hörmung. Hann hefði ekki skilið tungumálið, hefði verið látinn sofa á moldargólfi, veðrið hefði verið skelfilegt og maturinn hreinn viðbjóður. Heimamaðurinn svaraði á þá leið að sennilega yrði upplifun hans af sjávarþorpinu hin sama.
Örfáum klukkustundum síðar gengur annar ferðamaður niður fjallshlíðina í átt að sjávarþorpinu. Hann mætir heimamanninum og spyr við hverju megi búast í sjávarþorpinu. Heimamaðurinn spyr hvaðan ferðamaðurinn hafi verið að koma og hvernig honum hefði líkað. Ferðamaðurinn sagðist nýkominn úr fjallaþorpinu og reynslan hefði verið stórkostleg. Hann hefði ekki skilið tungumálið svo öll samskipti hefðu farið fram með áhugaverðum handahreyfingum, hann hefði verið látinn sofa á moldargólfi sem hefði verið ógleymanleg lífsreynsla og veðrið hefði verið slæmt sem hefði gert dvölina eftirminnilegri. Jafnframt hefði maturinn verið sérkennilegur en áhugavert hefði verið að setja sig inní allar aðstæður heimamanna. Heimamaðurinn svaraði á þá leið að sennilega yrði upplifun hans af sjávarþorpinu hin sama.
Við veljum ekki allar aðstæður okkar en við eigum val um viðhorf. Lífshamingjan ræðst að litlu leyti af því sem hendir okkur, en mestu leyti af viðhorfum okkar og viðbrögðum. Lífsleiðin er vandrataður vegur en jákvæðni er góður vegvísir.
Góður dagur byrjar að morgni. Nýtt ár slær nýjan tón. Verkefnin framundan eru ærin en í þeim felast jafnframt fjölmörg tækifæri. Horfum björtum augum fram á veginn. Hin íslenska bjartsýni mun koma okkur langt. Gleðilegt ár.
댓글