top of page

Ófært í Reykjavík!


„Færð þyng­ist mikið í dag og mögu­lega gæti orðið ófært í Grafar­holti, Grafar­vogi og í Úlfarsár­dal.“ Svohljóðandi voru skilaboð frá Reykjavíkurborg í vikunni.


Stormur með ákafri snjókomu

Snjór er nátengdur hversdagslegu lífi Íslendinga enda búum við á norðurhjara veraldar við margvísleg veðrabrigði. Tungumálið ber þess sannarlega merki. Í íslensku eru til mörg orð um snjó og snjókomu. Mjöll er notað um nýfallinn snjó og ef snjórinn er mjög laus í sér er talað um lausamjöll. Nýfallinn snjór er nefndur nýsnævi en harðfrosin snjóbreiða hjarn. Djúpur snjór er kallaður kafald en mjög blautur, djúpur snjór er stundum nefndur bleytuslag. Hálfbráðinn snjór kallast krap en skammvinn snjókoma með vindi nefnist él. Hundslappadrífa er svo mikil og stórflygsótt snjókoma í logni en ofankoma er notað um hvers kyns úrkomu en oftast um snjókomu, él og slyddu. Bylur er aftur á móti stormur með ákafri snjókomu, en það er sú tegund ofankomu sem Reykvíkingar hafa upplifað undanfarna daga.

 

Hringlandaháttur og virðingarleysi

Síðustu daga hefur líf og starfsemi í borginni orðið fyrir töluverðu raski vegna snjóþyngsla. Aðstæðurnar eru ekkert einsdæmi og ættu ekki að koma neinum að óvörum. Fyrr á þessu ári upplifðum við samskonar ofankomu og snjóþunga. Víða lamaðist starfsemi í borginni og virtist úrræðaleysi borgaryfirvalda algert.

 

Þá lýstu starfsmenn vetrarþjónustu borgarinnar sig „fullsadda" af hringlanda­hætti, þekkingar­leysi og virðingar­leysi borgaryfirvalda í sinn garð. Þeim væri ætlað að sinna krefjandi verkefnum við ómögulegar aðstæður - vanbúnir og undirmannaðir við slæmt skipulag.

 

Einungis nokkrum mánuðum síðar stöndum við frammi fyrir sambærilegum vanda en viðbragðið hefur ekki tekið framförum. Lærði meirihlutinn ekkert af síðasta vetri? Hefur innkoma Framsóknarflokksins ekki breytt neinu?

 

Gerum betur!

Það er grundavallaratriði að fólk komist greiðlega leiðar sinnar í borginni. Við búum í höfuðborg á norðurhjara veraldar og þjónusta borgarinnar ætti að gera ráð fyrir snjóþungum vetrum. Það er ótækt að úthverfum Reykjavíkur sé lokað vegna ófærðar. Hér þarf betra skipulag og öflugra viðbragð. Hér þarf nýjan meirihluta.

 

Hildur Björnsdóttir

Oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík 

Commentaires


bottom of page