top of page

Óskhyggja borgarstjóra

Á dögunum voru kynntar þjónustuskerðingar Strætó vegna tekjutaps meðan á COVID-faraldrinum stóð. Gert er ráð fyrir breytingarnar skili Strætó ríflega 200 milljóna króna sparnaði.


Borgarbúar eru orðnir vanir þjónustuskerðingum á ýmsum sviðum. Þar mætti nefna almenn þrif í borginni eða styttingu á opnunartíma leikskóla. Hins vegar hlýtur jafn rífleg þjónustuskerðing á almenningssamgöngum að koma einstaklega illa við borgarstjóra, sem boðað hefur stórkostlega uppbyggingu almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu.


Eins og stundum áður hjá borgarstjóra fara ekki saman orð og efndir.


Óraunhæf áætlanagerð

Í skýrslu fjármálaskrifstofu Reykjavíkur vegna 9 mánaða uppgjörs 2021 kom fram að tap af rekstri Strætó hafi numið 139 milljónum það sem af var ári, en að gert hefði verið ráð fyrir 250 milljón króna afgangi. Munurinn skýrist að stærstum hluta af því að borgarstjóri hafði í áætlun sinni gert ráð fyrir 900 milljónum í auknu rekstrarframlagi frá ríkinu vegna heimsfaraldursins, en þegar til kastanna kom fékk hann einungis 120 milljónir.


Hér er um að ræða enn eitt dæmið um óraunhæfa áætlanagerð meirihlutans í Reykjavík. Fyrir það fyrsta hefur Strætó ekki skilað hagnaði síðan árið 2017, og raunar hugsanavilla að tala um hagnað hjá fyrirtæki í opinberri eigu sem nýtur jafn ríkulegra niðurgreiðslna. Auk þess sem engin teikn voru uppi um að raunhæft væri að skila afgangi af Strætó í miðjum heimsfaraldri. Loks má spyrja hvort það sé ábyrg stjórnsýsla að nota væntingar um ríkisframlag sem virðist hafa verið algerlega úr lausu lofti gripið við áætlanagerð hjá borginni.


Enn eitt dæmið um áhugaleysi borgarstjóra á fjármálum borgarinnar.


Kerfið ofar fólkinu

Borgarstjóri hefur raunar oftar en ekki gripið í það hálmstrá að vísa til áhrifa heimsfaraldursins þegar hann hefur orðið uppvís að fjármálaóreiðu. En bara þegar hentar.


Eitt sinn kvartaði borgarstjóri undan því að straumur erlendra ferðamanna kostaði borgina marga milljarða á ári, en þegar heimsfaraldurinn lét á sér kræla krafðist hann - einu sinni sem oftar - framlags frá ríkinu til að bæta það tjón sem orðið hefði vegna þess að borgin hefði orðið af tekjum vegna ferðamanna! Þar fór ekki saman hljóð og mynd.


Þegar bent var á að starfsfólki Reykjavíkurborgar hefði fjölgað um 20% á kjörtímabilinu sagði borgarstjóri að um hefði verið að ræða efnahagsaðgerð vegna COVID faraldursins. Launakostnaður hjá borginni hefur hækkað um 15 milljarða síðustu fjögur árin. Borgarstjóri – kyndilberi almenningsamganga í orði kveðnu – er aflögufær um fleiri milljarða í aukinn launakostnað hjá skrifstofufólki, en getur ekki séð af tvö hundruð milljónum til að viðhalda ásættanlegu þjónustustigi hjá Strætó.


Því skal haldið til haga að rekstrartekjur Reykjavíkurborgar hafa aukist jafnt og þétt gegnum COVID faraldurinn að núvirði. Borgarstjóri hefur hins vegar sem fyrr ákveðið að forgangsraða því að belgja út kerfið í stað þess að sjá til þess að grunnþjónustan virki sem skyldi. Kerfið ofar fólkinu.


Bættar almenningssamgöngur í Reykjavík

Nú er gríðarleg uppbygging framundan á almenningssamgöngum á höfuðborgarsvæðinu sem áætlað er að muni kosta tugi milljarða. Sjálfstæðisflokkurinn styður bættar almenningssamgöngur í Reykjavík, en framkvæmdin þarf að vera í höndum fólks sem ber virðingu fyrir fjármunum útsvarsgreiðenda. Þess vegna er mikilvægt að staldra við og leggja mat á þær fjárhagslegu forsendur sem núverandi meirihluti í Reykjavík hefur lagt til grundvallar í málinu.


Eða hvernig ætlar borgarstjóri að reisa og reka tugmilljarða samgöngukerfi, þegar honum tekst ekki einu sinni að viðhalda lágmarksþjónustustigi hjá gamla góða Strætó?


Hildur Björnsdóttir

Höfundur er oddviti Sjálfstæðisflokksins í ReykjavíkKommentare


bottom of page