Sjálfstæðisflokkurinn vill að borgin verði endurskipulögð á forsendum hverfanna – á grundvelli sérstöðu þeirra og styrkleika. Borgarhverfi verði skipulögð með það fyrir augum að unnt verði að nálgast helstu verslun og þjónustu í 15 mínútna göngufæri. Forsenda 15 mínútna hverfa er blönduð byggð hvar íbúðarhúsnæði, vinnustaðir og þjónusta eru í nálægð hvert við annað. Fjölgun vinnustaða í austurhluta borgarinnar mun ýta undir þessa þróun og hafa jákvæð áhrif á samgöngur í borginni.
Leitum ekki langt yfir skammt
Reykjavík stendur á tímamótum - spennandi umrótstímum sem kalla munu á breytingar. Við lærðum margt tímum heimsfaraldurs og samkomutakmarkana. Fleiri þurftu að reiða sig á nærumhverfið til að þjóna daglegum þörfum. Borgarhverfin urðu áður óþekkt þungamiðja í hversdagslegu lífi fólks.
Aukinn fjöldi fólks sinnti störfum og námi frá heimili sínu. Vafalaust verður aukin fjarvinna og fjarnám varanleg afleiðing heimsfaraldurs. Starfsmenn munu verja fleiri vinnudögum innan hverfa. Námsmenn munu verja fleiri námsstundum innan hverfa. Frekari forsendur skapast fyrir fjölbreytta hverfisþjónustu – fólk mun síður vilja sækja langt yfir skammt.
Miðbær í öllum hverfum
Víða um borg standa hverfiskjarnar og mega margir þeirra muna fífil sinn fegurri. Sjálfstæðisflokkurinn vill glæða kjarnana fyrra lífi með því að virkja einkaframtak og bæta skipulag. Borgin veiti atvinnurekendum sem hefja starfsemi í auðum hverfiskjörnum, styrki sem samsvara niðurfellingu opinberra gjalda í tvö ár. Þannig má skapa aukið mannlíf innan hverfa, efla nærþjónustu og einfalda daglegt líf íbúanna – tryggja öllum hverfum sinn eigin miðbæ.
Aukin uppbygging innan úthverfa
Borgarskipulag hefur órjúfanleg áhrif á lífsgæði. Það er samofið lýðheilsu og fjölbreyttum félagslegum þáttum. Með 15 mínútna hverfum má stytta ferðatíma og bæta lýðheilsu - gera fleirum kleift að sinna erindum gangandi eða hjólandi. Með lifandi nærþjónustu má ýta undir samskipti ólíkra þjóðfélagshópa - draga úr einsemd og félagslegri einangrun – skapa lifandi umhverfi þar sem fólk mætist og þekkist.
En svo efla megi úthverfin og skapa auknar forsendur fyrir meiri þjónustu, þarf að veita aukið svigrúm til uppbyggingar innan hverfa sem hafa til þess svigrúm. Mikilvægt er að öll uppbygging fari fram í góðri sátt við íbúa og umhverfi.
Reykjavík þar sem fólki líður vel
Sjálfstæðisflokkurinn vill Reykjavík sem býður frelsi og val. Fjölbreytta borg fyrir fjölbreytt fólk. Reykjavík sem mætir alls kyns þörfum. Sjálfbær hverfi með öflugri nærþjónustu. Borgarskipulag sem stuðlar að samskiptum. Reykjavík sem bannar minna og leyfir meira – styður við framtakssemi og fagnar hugmyndaauðgi. Borg sem setur þjónustu við fólk í forgrunn. Reykjavík þar sem fólki líður vel.
Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík
Comments