top of page

Útfararstjóri Reykjavíkur

Síðar í dag verður ársreikningur Reykjavíkurborgar fyrir árið 2022 gerður opinber. Ef marka má útkomuspá verður útlitið ekki bjart. Hallarekstur mun reynast sexfaldur á við áætlanir, yfirbyggingin halda áfram að vaxa og skuldir að aukast.

 

Borgarstjóri mun stíga fram og kenna ríkisvaldinu, fötluðu fólki og utanaðkomandi þáttum um hallareksturinn. Einar Þorsteinsson, formaður borgarráðs, mun kæruleysislega yppta öxlum og aðrir oddvitar meirihlutaflokkanna munu þegja þunnu hljóði. Ekki nokkur mun hafa manndóm til að axla ábyrgð.

 

Með bundið fyrir augun

Slæm fjárhagsstaða Árborgar hefur verið til umfjöllunar að undanförnu, en sveitarfélagið brást við eftir að hafa borist erindi frá eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga. Framundan er róttæk tiltekt í rekstri sveitarfélagsins, eignasala og uppsagnir.

 

Til samanburðar má geta þess að í febrúarlok barst Reykjavíkurborg sams konar bréf frá eftirlitsnefndinni, þar sem á það var bent að borgin uppfyllti ekki öll lágmarksviðmið nefndarinnar fyrir grunnrekstur sveitarfélags. Áætlanir bæði Reykjavíkur og Árborgar gera ráð fyrir taprekstri, lítilli framlegð og verulegri skuldaaukningu á næstu árum. Meirihlutinn í Reykjavík sá hins vegar ekki ástæðu til að taka bréfið til umræðu strax í borgarstjórn, og sá allra síst ástæðu til að bregðast við. Áfram heldur hópurinn í fullkominni afneitun, með bundið fyrir augun.

 

Áhyggjur eftirlitsnefndar koma ekki á óvart. Útkomuspá fyrir árið 2022 gerir ráð fyrir 15,3 milljarða halla af rekstri borgarsjóðs. Skuldir samstæðunnar jukust um 35 milljarða árið 2022 og gera áætlanir ráð fyrir að skuldir haldi áfram að aukast um 83 milljarða til ársins 2027. Engin áform um skipulega niðurgreiðslu skulda.

 

Í Árborg var það álitið sérstakt áhyggjuefni að skuldir samstæðu fyrir hvern íbúa hafi numið tæpum 2 milljónum árið 2021. Til samanburðar námu skuldir samstæðu á hvern íbúa í Reykjavík 3,1 milljón árið 2021 og fara hækkandi. Rauðu flöggin í Árborg eiga jafnframt við í Reykjavík - en í höfuðborginni vill enginn kannast við vandann.

           

Starfsmönnum fjölgað um 25%

Starfsmenn A-hluta borgarinnar voru um áramót 11.703 og hefur fjölgað um 25% síðastliðin fimm ár. Yfir sama tímabil hefur íbúum borgarinnar aðeins fjölgað um 10%. Starfsmönnum fjölgar því langt umfram lýðfræðilega þróun.

 

Í Árborg var uppi sambærileg staða en þar fjölgaði starfsmönnum jafnframt langt umfram íbúafjölgun á fimm ára tímabili. Var það álitið sérstakt vandamál í rekstrinum. Ekki síst vegna þess að launakostnaður var farinn að nema 58,7% af heildartekjum sveitarfélagsins.

 

Launakostnaður vegur jafnframt þungt í rekstrareikningi borgarinnar en árið 2022 nam launakostnaður heilum 60% af heildartekjum Reykjavíkurborgar! Fjármála- og áhættustýringarsvið benti á að lækka þyrfti hlutfall launakostnaðar á næstu árum, en borgarstjóri gat á síðasta fundi borgarstjórnar ekki tekið í sama streng.

 

Afsakanir á reiðum höndum

Á síðasta kjörtímabili birti borgarstjóri ábatagreiningu af komu ferðamanna til Reykjavíkurborgar. Sýndi niðurstaðan að ferðamenn kostuðu borgina um 8,3 milljarða árlega og áttu því að teljast meginorsakavaldur rekstrarhallans. Þegar ferðamennirnir svo hurfu í heimsfaraldri var með einhverri reiknilistinni fundið út að borgin yrði jafnframt fyrir stórkostlegu tapi af brotthvarfi þeirra. Það var ýmist í ökkla eða eyra.

 

Nú gerir borgarstjóri víðreist í miðlunum og segir meginástæður hallarekstursins vera covid aðgerðir sem hafi valdið tekjufalli og auknum fjárfestingum hjá borginni. Hvoru tveggja stenst ekki skoðun enda drógust fjárfestingar borgarinnar saman á tímum heimsfaraldurs en tekjur héldu áfram að vaxa, jafnvel umfram áætlanir. Þar hafði mest að segja hin svokallaða hlutabótaleið ríkisins, sem varði störf og þar með einn mikilvægasta tekjustofn sveitarfélaganna, útsvarið.

 

Borgarstjóri, skiptastjóri eða útfararstjóri?

Einstaklingur sem leppar einkahlutafélag á leið í þrot er gjarnan nefndur útfararstjóri. Með fyrirkomulaginu er komið í veg fyrir að nafn fyrri eiganda félagsins verði tengt við gjaldþrotið.

 

Á dögunum lýsti undirrituð áhyggjum af því, að um næstu áramót yrði Einar Þorsteinsson að líkindum ekki borgarstjóri, heldur einhvers konar skiptastjóri. Það má í það minnsta fullyrða að grunlaus hafi framsóknarmaðurinn samþykkt að verða útfararstjóri Reykjavíkur – taka við sögulega slæmu búi borgarinnar svo núverandi borgarstjóri geti siglt inní sólarlag stjórnmálaferilsins, flekklaus af fyrirliggjandi vanda.

 

Hildur Björnsdóttir

Oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík




Comments


bottom of page