top of page

Þrettán ára þráhyggja

Laxveiðidagurinn er mikill tyllidagur í Reykjavík. Þá safnast allir sem vettlingi geta valdið að veiðistaðnum. Kvenfólkið var ríðandi í söðlum. Hleyptu þær hestum sínum með undraverðu hugrekki og kjarki”, ritaði enskur ferðamaður árið 1810 um Laxveiðidaginn í Elliðaánum.


Nýverið samþykkti meirihluti borgarstjórnar atvinnuuppbyggingu í Elliðaárdalnum. Borgarstjóri hefur barist fyrir uppbyggingunni í þrettán ár. Íbúar og hollvinasamtök hafa andmælt áformunum. Sjálfstæðisflokkur hefur lagt til friðlýsingu dalsins. Formaður skipulagsráðs telur tilfinningatal um verðmæta náttúru dalsins hjákátlegt enda sé dalurinn manngerður. Öðruvísi mér áður brá.


Elliðaárdalurinn geymir fjölmörg náttúrufyrirbrigði og söguleg kennileiti. Þar má finna minjar um tvö jökulskeið, plöntutegundir sem taldar eru í útrýmingarhættu og 200-300 þúsund ára gamlar skeldýra- og gróðurleifar. Eins má finna fjölbreytt fuglalíf og margvíslegan upprunalegan blómgróður. Það eru kannski þessi fyrirbrigði sem formaðurinn telur manngerð?


Í dalnum má finna Elliðaárnar sem taldar eru með bestu fiskveiðiám landsins. Núverandi farvegir mótuðust þegar Elliðavogshraunið rann, en það er talið 5200 ára gamalt. Það eru kannski árnar sem formaðurinn telur manngerðar? Eða kannski hraunið?


Trjárækt í Elliðaárdal er talin hefjast um 1920. Heimildir herma að ríflega hundrað árum fyrr hafi Reykvíkingar haldið í lystireisur í dalinn á frídögum. Vissulega hefur skógrækt og stígagerð skapað aðgengilegt og skjólgott umhverfi. Virkjun Elliðaánna og uppfylling við Elliðarárósa breyttu einnig náttúrufari. En dalurinn er ekki manngerður – hann varð þýðingarmikill fyrir borgarlífið löngu áður en mannshöndin hóf afskipti.


Nú hefst uppbygging atvinnustarfsemi í Elliðaárdalnum – á svæði sem fremur hefði mátt þróa í samhengi við náttúru dalsins. Það væri óskandi að samstarfsflokkar borgarstjóra hleyptu hestum sínum af sama hugrekki og kjarki og stúlkurnar á Laxveiðideginum – því ekki hafa þeir mótmælt þrettán ára þráhyggju borgarstjóra fyrir atvinnustarfsemi í dalnum. Það er miður.
Comments


bottom of page