Undanfarnar vikur hafa Reykvíkingar fundið vel á eigin skinni hve grunnþjónusta borgarinnar skiptir miklu máli. Fjöldi fólks hefur mátt búa við skert ferðafrelsi vegna skorts á snjómokstri – ekki síst þeir sem almennt ferðast gangandi, hjólandi eða í hjólastól - þrátt fyrir stefnu borgaryfirvalda um aukna hlutdeild vistvænna ferðamáta. Hið sama gildir um sorphirðuna sem hefur verið verulega ábótavant að undanförnu. Yfirfullar endurvinnslutunnur eru ekki tæmdar, sorpið er ekki flokkað og ruslið fýkur um Reykjavík.
Þetta er áhugaverð staða, aðeins örfáum vikum fyrir kosningar, þar sem borgarstjóri freistar þess að ná kjöri fimmta kjörtímabilið í röð eftir 20 ára setu í borgarstjórn. Að halda inn í kosningar með borgina á sjálfsstýringu kann ekki góðri lukku að stýra. Einkum og sér í lagi eftir langa baráttu við heimsfaraldur og í miðri húsnæðiskreppu á tímum efnahagssþrenginga og fordæmalausrar skuldastöðu borgarinnar.
Eftir langan tíma í valdastólum hættir stjórnamálamönnum til að missa sjónar á stóru myndinni. Æðstu embættismenn og kjörnir fulltrúar renna saman í eina sæng og með tímanum dofnar hið nauðsynlega lýðræðislega aðhald. Við sjáum þetta alltof vel í Reykjavík þar sem enginn axlar ábyrgð á því sem aflaga fer því viljinn til að viðhalda óbreyttu ástandi – og valdastólum - er öðru yfirsterkari.
Eitt af því sem er mest heillandi við borgarmálin er nándin við íbúana. Daglegar ákvarðanir borgaryfirvalda snerta daglegt líf fólks með beinum hætti. Þegar þeir sem sitja við stjórnvölinn eru hins vegar orðnir saddir lífdaga í pólitík verða afleiðingarnar oft átakanlega áþreifanlegar. Það er stundum haft á orði að vika sé langur tími í pólitík. Þá hljóta 1040 vikur í valdastóli að marka ákveðin kaflaskil. Blessunarlega eru kosningar í nánd.
Við þurfum breytingar í borginni – Reykjavík sem virkar.
Comments