top of page

Bráðræði í borginni

Í kringum aldamótin 1800 var sagt að Reykjavík byrjaði í Bráðræði og endaði í Ráðleysu. Var þá vísað til nafna á ystu húsum borgarinnar, sem stóðu sitt í hvorum enda Reykjavíkur. Nú, ríflega tveimur öldum síðar, mætti enn taka í sama streng – fjárhagur borgarinnar byrjar gjarnan af bráðræði og endar í ráðleysu.


Vannýtt tækifæri

Á dögunum kynnti Reykjavíkurborg fjárhagsáætlun til ársins 2025. Áætlunin er ekkert gamanmál enda áform um skuldahækkanir, auknar mannaráðningar og vaxandi rekstrarkostnað. Áformuð er fjölgun starfsfólks á borgarkontórnum, en hins vegar fækkun starfsfólks á leikskólum. Þar birtast mótsagnakennd fyrirheit um fækkun leikskólastarfsmanna einmitt þegar ákall eftir fjölgun leikskólarýma fer vaxandi.


Í áætluninni kemur jafnframt fram hvernig heildarskuldir borgarinnar hafa hækkað á kjörtímabilinu úr 299 milljörðum í rúma 400 milljarða króna. Þá er ráðgert að skuldir hækki enn frekar um 53 milljarða til ársins 2025. Skuldaaukningin raungerist þrátt fyrir 7,5% tekjuaukningu árið 2021. Útgjöld vaxa samhliða en launakostnaður hækkar um 15% á tveimur árum og rekstrarkostnaður er hlutfallslega hærri en hjá öllum nágrannasveitarfélögum. Einstök tækifæri stæðarhagkvæmninnar eru vannýtt.


Stafrænn kerfisvöxtur

Stafræn umbreyting á þjónustu Reykjavíkurborgar mun fyrirséð ýta undir enn frekari vöxt borgarkerfisins. Verkefnið byggir á gríðarlegri fjölgun opinberra starfa og takmarkaðri útvistun verkefna. Verkáætlun kallar á minnst 60-80 ný ársverk innan borgarkerfisins. Sú óútfærða ákvörðun meirihluta borgarstjórnar að verja 10 milljörðum af opinberu fé í verkefnið til næstu þriggja ára vekur áhyggjur. Ekki síst sú ákvörðun að innvista verkefnum sem betur færi á að útvista.


Það er áhyggjuefni þegar hið opinbera fyrirhugar að reisa stærsta hugbúnaðarhús landsins og ráðast í beina samkeppni við atvinnulíf um takmarkaða sérþekkingu. Stafræn umbreyting er sannarlega mikilvægt framfaraskref á tímum fjórðu iðnbyltingarinnar. Þó er umhugsunarvert hvernig opinberum fjármunum verður varið og hversu litlu er fyrirhugað að útvista.


Báknið vex

Samkvæmt fjöldatölum Hagstofunnar eru nú 70.265 vinnandi einstaklingar með lögheimili í Reykjavík. Til samanburðar munu nærri 13 þúsund manns starfa hjá Reykjavíkurborg við árslok 2022. Það samsvarar nærri 19% vinnandi fólks í Reykjavík – eða því að fimmti hver íbúi borgarinnar verði starfsmaður Reykjavíkur.


Það er ósjálfbært að ætla sér frekari fjölgun opinberra starfsmanna sem ekki sinna menntun eða velferðarþjónustu við borgarbúa. Mikilvægasta atvinnuskapandi aðgerðin verður alltaf sveigjanlegra regluverk, lægri álögur og myndarlegri stuðningur við atvinnulíf. Þannig sköpum við skilyrði til verðmætasköpunar og fjölgum atvinnutækifærum í borginni.


Tiltekt í borginni

Borgarkerfið verður að undirgangast tiltekt. Við þurfum minni yfirbyggingu og skipulega niðurgreiðslu skulda. Við þurfum öflugri grunnþjónustu og svigrúm til lækkunar skatta á fólk og fyrirtæki. Við þurfum að selja fyrirtæki í samkeppnisrekstri. Við verðum að sýna ábyrgð og ráðdeild þegar sýslað er með fjármuni borgarbúa. Þá fyrst mun draga úr bráðræði og ráðleysu innan borgarmarkanna.


Hildur Björnsdóttir

Borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks




Comments


bottom of page