top of page

Draumar framtíðar eða draugar fortíðar?

“Við breytingar skal ekki eyða orku í baráttu við hið gamla, heldur í uppbyggingu hins nýja.” – Sókrates.


Árið 1908 kom til sögunnar fyrsta fjöldaframleidda bifreiðin. Áður höfðu fólksflutningar verið á herðum dráttarklára. Tækninýjungin mætti þónokkurri andstöðu. Bílar þóttu hávaðasamir, mengandi og fyrirferðarmiklir. Fljótlega varð fólki þó ljóst að hestar væru ekki fýsilegasti faraskjótinn. Einkabíllinn boðaði byltingu í samgöngum. Ferðamynstur breyttust, bíllinn færði fólki aukið frelsi og helstu borgir heims byggðu þéttriðin samgöngukerfi fyrir bíla.


Ríflegri öld síðar hefur gamanið þó aðeins kárnað. Flestar borgir heims glíma nú við bílafjölda sem samgönguinnviðir ráða illa við. Reykjavíkurborg er þar engin undantekning. Um götur borgarinnar fara bílar um 800.000 ferðir daglega. Síðustu ár hefur bílum fjölgað meira en fólki í borginni. Samtök iðnaðarins hafa áætlað að höfuðborgarbúar sólundi um níu milljón klukkustundum í umferðartafir árlega. Þetta er niðurstaða samgöngustefnu sem ekki virkar. Við þurfum breyttar ferðavenjur.


Sókrates sagði lykilinn að breytingum felast í því, að eyða ekki orku í baráttu við hið gamla, heldur uppbyggingu hins nýja. Samkvæmt spekinni getur lausn samgönguvandans ekki falist í árás á ráðandi samgönguhætti, heldur mun fremur uppbyggingu nýrra valkosta.


“Allar skoðanir skal endurmeta um leið og ný viðhorf myndast.” – Vigdís Finnbogadóttir

Sjaldan hafa breytingar á samfélagsgerð og kynslóðum verið örari. Tímarnir breytast á leifturhraða – og nýjum tímum fylgja ný viðhorf. Það birtist glöggt í nýlegum mælingum á viðhorfum til samgangna.


Síðustu ár hefur langstærstur hluti borgarbúa farið leiðar sinnar á bíl. Nýlegar mælingar sýna að 63% höfuðborgarbúa ferðast til vinnu sem bílstjórar á einkabíl. Hins vegar sýna sömu mælingar að aðeins 35% höfuðborgarbúa kjósa helst að ferðast með þeim hætti til vinnu. Þannig myndi rúmlega 21% þeirra sem ferðast til vinnu á bíl fremur vilja ferðast á reiðhjóli, tæplega 14% fótgangandi og um 6% í strætó.


Fólk er reiðubúið að gera breytingar – það vill gera breytingar – en borgarumhverfið þarf að bjóða valkosti. Ef við viljum breyta ferðavenjum eyðum við ekki orku í að ráðast að bíleigendum – heldur í uppbyggingu nýrra valkosta. Það er speki Sókratesar.


Þetta vissi Boris Johnson, fyrrum borgarstjóri Lundúna. Hann skynjaði breyttan tíðaranda og setti það markmið að skapa fremstu hjólaborg heims. Hann vildi fjölga þeim sem upplifðu ánægju og öryggi á reiðhjóli. Hjólreiðaútrásin reyndist honum ekki alltaf auðveld – en hún reyndist samvisku hans ávallt rétt. Hans helsta eftirsjá úr borgarstjóratíðinni er að hafa ekki gengið enn lengra – að hafa ekki gefið hjólreiðum enn meira vægi. Því tíminn leiddi í ljós að hann var á réttri braut.


“Mér líka betur, draumar framtíðar en sögur fortíðar.” – Thomas Jefferson


Samgöngur taka breytingum samhliða þörfum samtímans. Í dag ferðast 27% höfuðborgarbúa gangandi, hjólandi eða með almenningssamgöngum til vinnu. Mælingar sýna þó að nærri 55% höfuðborgarbúa myndu helst vilja ferðast með þeim hætti. Þegar þarfirnar breytast, verða stjórnmálin að bregðast við.


En alltaf verða þeir, sem sveipa fortíðina dýrðarljóma. Fortíðin er harður húsbóndi – og framtíðin veitir þjónum fortíðar fábreytt örlög. Fegurstu framtíðarmúsíkina spilum við ekki eftir forskrifuðum nótum fortíðar – heldur fríhendis, eftir tónum tíðarandans og hrynjanda samtímans. Við þurfum að tala meira um drauma framtíðar og minna um drauga fortíðar.


Reykjavík er fullkominn staður fyrir drauma framtíðar. Tækifærin til framfara eru alltumlykjandi. Hæglega má svara kalli samtímans og tryggja fólki samgöngur við hæfi. Skapa þéttriðið net göngu- og hjólastíga og hágæða almenningssamgöngur. Tryggja öllum borgarhverfum öfluga nærþjónustu og fjölbreytt atvinnutækifæri. Skapa fjölbreytta borg fyrir fjölbreytt fólk – þar sem borgarbúar hafa úr fjölbreyttum kostum að velja -– því mestu lífsgæðin felast alltaf í frelsinu.


Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúiComments


bottom of page