Stjórnmálafólki er tamt að líta til framtíðar. Framsækin framtíðarsýn er vegvísir - enda framtíðin spennandi uppspretta tækifæra - en framtíðarsýn án aðgerða er duglaus draumur.
Íbúar Reykjavíkur standa höllum fæti. Hversdagslegt líf fólks er í óreiðu. Samanburður við nágrannasveitarfélögin neyðarlegur. Grundvallarþjónustan versnar. Núverandi meirihluti í borgarstjórn Reykjavíkur hefur siglt í strand. Hljómfögur fyrirheit hafa litlu skilað. Staðreyndirnar tala sínu máli.
Gefin voru loforð um stórefldar almenningssamgöngur. Á fimm árum var fimm milljörðum veitt í Strætó. Fjölga átti ferðum úr 4% í 6%. Ferðum fjölgaði hlutfallslega ekkert. Tafatími í umferðinni er óásættanlegur. Vinnudagur fólks hefur lengst fyrir vikið. Samgöngumál eru í ólestri.
Talað var um átak í leikskólamálum. Hundruðir barna – og hundruðir heimila – voru án daggæslu vegna manneklu á leikskólum. Hundruðir foreldra dvöldu langdvölum frá vinnu. Aðstöðumál voru í ólestri. Viðbrögð meirihlutans voru lækkuð leikskólagjöld. Fullkomið skilningsleysi á fyrirliggjandi vanda.
Þrátt fyrir fögur fyrirheit í skólamálum standa íslensk skólabörn nú verst allra barna á Norðurlöndum. Þau eru undir meðaltali OECD ríkja í öllum mældum námsgreinum. Þetta sýna niðurstöður PISA kannana. Frammistaða íslenskra nemenda hefur staðnað frá árinu 2012. Reykjavíkurborg hefur setið aðgerðarlaus.
Teflt var af djörfung þegar lofað var uppbyggingu 2500 til 3000 búseturéttar- og leiguíbúða. Af öllum sveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins, eru hlutfallslega langfæstar íbúðir byggðar í Reykjavík. Enn skortir þúsundir íbúða. Síðasta ár voru eingöngu 322 íbúðir fullkláraðar. Heimilislausum hefur fjölgað um 95% síðustu fimm árin. Biðlistar eftir félagslegu húsnæði hafa lengst á kjörtímabilinu. Vandi Reykvíkinga er augljós.
Fögur fyrirheit núverandi meirihluta hafa engu skilað. Raunveruleg vandamál fólks verða ekki leyst með plástrum. Starfshópar gæta ekki leikskólabarna. Teikningar veita ekki húsaskjól. Kynningarefni leysir ekki samgönguvanda. Skýrslur bæta ekki námsaðstöðu. Framtíðarsýn leysir ekki flækjur hversdagsins.
Núverandi meirihluti óskar endurnýjaðs umboðs borgarbúa. Hann vill taka ákvarðanir um framtíðarskipan borgarinnar. Þá er óhjákvæmilegt að spyrja: Hvers vegna skyldi það sem tvisvar mistókst, takast nú? Því allt er þegar þrennt er?
Það er sjálfsagt að horfa til framtíðar. Raunar nauðsynlegt. En þaulseta í stjórnmálum kallar á ábyrgð. Hún kallar á uppgjör við fortíðina. Ekki verður eilíflega hangið í duglausri draumsýn. Verkin verða að tala.
Þetta er fullreynt. Það er kominn tími á breytingar.
Comments