Árið 2017 samþykkti meirihluti stjórnar Orkuveitunnar greiðslu 750 milljóna króna arðs til Reykjavíkurborgar fyrir rekstrarárið 2016. Minnihluti stjórnar, þau Áslaug María Friðriksdóttir og Kjartan Magnússon, mótmælti áformunum enda arðgreiðsluskilyrði ekki uppfyllt. Í aðdragandanum voru slegin lán til að fjármagna veisluna. Þarna misnotaði pólitíkin Orkuveituna sem tekjutusku fyrir óskilgreind verkefni borgarstjóra.
Ég gerði arðgreiðslurnar að umtalsefni á dögunum. Steig þá Gylfi Magnússon á stokk, föndraði fínar tölur og sakaði mig um ásetning til útúrsnúnings. Einu útúrsnúningarnir voru þó hans slaufukennda tölfræði og sérbökuðu staðreyndir. Hann skautaði að fullu framhjá umræðuefninu – arðgreiðslum sem ekki uppfylltu tilsett skilyrði. Hann var auðvitað í varnarstöðu. Hann er einn þeirra sem tók ákvörðunina á sínum tíma.
Í kjölfar hrunsins réðust flest fyrirtæki landsins í aðgerðir til að rétta reksturinn. Þar var Orkuveitan ekki undanskilin. Orkuveitan bjó hins vegar við þann munað - ólíkt öðrum fyrirtækjum - að geta velt stórum hluta sinna rekstrarvandræða yfir á borgarbúa. Þannig hækkaði fyrirtæki í einokunarstöðu gjaldskrár á versta tíma fyrir sína viðskiptavini. Með einu pennastriki. Samhliða var slegið lán hjá borgarsjóði, sem auðvitað er fjármagnaður af skattgreiðendum. Nauðsynlegum innviðafjárfestingum var frestað. Allar bitnuðu ráðstafanirnar lóðbeint á borgarbúum.
Nú hefur rekstur Orkuveitunnar náð betra jafnvægi. Maður myndi ætla borgarbúar nytu ágóðans. En aldeilis ekki. Ávinninginn af árangrinum ætlar núverandi meirihluti að setja beint í bauk borgarsjóðs, með ríflega 14 milljarða arðgreiðslum til borgarinnar á næstu árum. Takmörkuð áform standa til gjaldskrárlækkana. Þetta er kunnuglegt stef hjá stjórnmálafólki – kunnuglegur freistnivandi meirihlutans - engum er betur treystandi fyrir peningum en kjörnum fulltrúum.
Ég aðhyllist ekki sama stef. Ég tel engum betur treystandi fyrir fjármunum en einmitt þeim sem afla þeirra. Borgarbúum. Rekstrarárangur Orkuveitunnar á mun fremur að renna beint til réttilegra eigenda Orkuveitunnar - borgarbúa - með lækkun gjaldskrár. Það er ekki lögmál að skattar og gjöld geti eingöngu hækkað en aldrei lækkað.
Borgarstjóri innheimtir nú þegar hæsta lögleyfða útsvar, hefur skuldsett borgina upp í rjáfur, innheimtir fasteignagjöld sem valda smærri fyrirtækjum verulegum vandræðum og eyðir því sem aflögu er í gæluverkefni. Afrakstur þessara sömu gæluverkefna er svo færður einkaaðilum undir markaðsverði. Samhliða setur borgarstjóri arðgreiðslukröfur á Orkuveituna – og skuldsetur svo fyrirtækið fyrir ævintýrinu. Allt á kostnað borgarbúa.
Auðvitað eru arðgreiðslur til eigenda í góðu árferði, sjálfsagðar og eðlilegar í hefðbundnum fyrirtækjarekstri. Orkuveitan er þó annars eðlis – hún er orkufyrirtæki í almannaeigu. Kjarnahlutverk hennar er að veita góða þjónustu á hagstæðu verði. Á næsta borgarstjórnarfundi mun ég leggja til að horfið verði frá arðgreiðsluáformum og þjónustugjöld lækkuð til samræmis. Óþarflega háar gjaldskrár eru ekkert annað en dulbúin skattheimta á borgarbúa.
Hildur Björnsdóttir
Höfundur er borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík
Comments