top of page

Er leikskólavandinn tilviljun?

Fyrir kosningar 2018 lofaði Samfylking öllum börnum leikskólavist frá 12 mánaða aldri. Samskonar loforð voru raunar kynnt fyrir kosningar 2014, 2010 og 2006. Frá þeim tíma hafa orð og efndir farið illa saman.


Meirihlutaflokkarnir hreykja sér ítrekað af stofnun 38 nýrra ungbarnadeilda á leikskólum borgarinnar. Vinstri græn segja þennan meinta árangur enga tilviljun og vilja skreyta sig með þessum undarlegu fjöðrum. Gefa flokkarnir til kynna að ötullega hafi verið unnið að lausn leikskólavandans og biðlistarnir styttri en áður. Gögnin tala hins vegar öðru máli.


Af þeim 513 börnum sem hófu vistun á hinum nýju ungbarnadeildum eru tæplega 9% þeirra 18 mánaða eða yngri. Jafnframt er um helmingur barnanna á ungbarnadeildunum á aldrinum tveggja til þriggja ára. Það má því ljóst vera að einungis lítill hluti þeirra barna sem dvelur daglangt á nýjum ungbarnadeildum borgarinnar getur flokkast sem ungbörn að aldri – og leikskóladeildirnar 38 hafa ekki komist nálægt því að tryggja hin marglofuðu leikskálapláss fyrir 12 mánaða börn.


Það er kominn tími á breytingar

Árið 2017 voru rúm 800 börn á biðlista eftir leikskólaplássi. Fjórum árum síðar er fjöldi barna á biðlistum enn um 800. Illa gengur að stytta biðlista, illa gengur að manna leikskóla og illa gengur að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla.


Leikskólavandinn í borginni er nefnilega engin tilviljun. Um málaflokkinn halda stjórnmálaöfl sem sýna málefnum fjölskyldunnar ítrekað sinnuleysi. Það er kominn tími á breytingar.

Sjálfstæðisflokkurinn vill setja fjölskyldumálin í forgang. Skapa borg sem býður trausta og áreiðanlega daggæslu eða leikskólavist strax í kjölfar fæðingarorlofs. Leysa þarf mannekluvanda leikskólanna og draga úr brottfalli dagforeldra.Jafnframt þarf að styðja við sjálfstætt starfandi leikskóla sem svarað hafa eftirspurn sem borgin hefur ekki getað mætt. Tryggja þarf framsækna leikskólaþjónustu í borginni, öfluga daggæslu og úrval valkosta – það er mikilvægt jafnréttismál.


Hildur Björnsdóttir

Oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík






Comentarios


bottom of page