top of page

Farvegur frumkvæðis

Reglulega berast ábendingar um óvinveitt rekstrarumhverfi í Reykjavík. Stjórnsýslan sé óaðgengileg, reglur óskýrar og umsóknarferli flókin. Ábendingarnar eru réttmætar og við þeim þarf að bregðast. Það er ólíðandi þegar opinber kerfi hafi hamlandi áhrif á frumkvæði og framtak.


Í nýjustu útgáfu Samtaka atvinnulífsins er undirstrikað hvernig óþarflega íþyngjandi regluverk getur dregið úr hvata til atvinnustarfsemi og skert samkeppnishæfni. Ryðja þurfi úr vegi hvers kyns hindrunum sem haft geta hamlandi áhrif á frumkvöðlastarfsemi. Nú sem aldrei fyrr sé mikilvægt að tryggja þeim sem vinna að verðmætasköpun, sveigjanleika og hagstæð skilyrði til árangurs.


Óhætt er að taka undir sjónarmið samtakanna. Ekki síst hvað varðar umsóknir um rekstrarleyfi í Reykavík. Stofnun leyfisskyldrar starfsemi reynist mörgum þungur róður og leitin að upplýsingum hálfgert völundarhús. Mikilvægt er að tryggja einfalt regluverk og sveigjanlegt kerfi, ekki síst við núverandi efnahagsaðstæður. Ryðja þarf farveg frumkvæðis í Reykjavík.


Sem viðbragð við þessari stöðu hefur undirrituð lagt fram tillögu í skipulagsráði um einföldun og rafvæðingu leyfisumsókna í Reykjavík. Tillagan gerir ráð fyrir að einfalda þurfi allar leikreglur fyrir þá sem vilja hefja leyfisskylda starfsemi. Gera þurfi tæmandi lista yfir þau skilyrði sem uppfylla þarf svo starfsemi geti hlotið rekstrar- eða tækifærisleyfi. Umsóknarferli og undirskriftir þurfi svo að rafvæða að fullu, ásamt leyfisveitingunum sjálfum. Stjórnsýslan eigi að vera til taks fyrir þá sem vilja sækja fram. Tillagan hefur ekki hlotið afgreiðslu.


Í útgáfu sinni taka Samtök atvinnulífsins undir þessi sjónarmið: “Tafir á afgreiðslu mála og óaðgengilegar reglur hafa reynst fjölda atvinnurekenda í borginni fjötur um fót og valdið íþyngjandi fjármagnskostnaði. Samtök atvinnulífsins hvetja Reykjavíkurborg til að tryggja betri jarðveg fyrir framfarir og verðmætasköpun í höfuðborginni. Einfalda þarf alla stjórnsýslu, fækka skrefum vegna leyfisveitinga og tryggja að umsóknarferli verði að fullu rafræn.”


Við verðum að tryggja betri jarðveg fyrir framfarir og verðmætasköpun. Frumkvæði og framtak verða ávallt að eiga öruggan farveg í Reykjavík.


Hildur Björnsdóttir

Borgarfulltrúi








Comentarios


bottom of page