top of page

Fjárhagslegar sjónhverfingar

Nú í aðdraganda kosninga keppast framboð við að lofa kjósendum bót og betrun í borginni. Loforðin eru misraunhæf og sum jafnvel óraunhæf með öllu. Hér mætti nefna stærstu kosningaloforð Samfylkingar - Borgarlínu strax og Miklubraut í stokk - sem verða ekki fjármögnuð án stórkostlegrar skuldsetningar.


Það er vissulega mikilvægt að fjárfesta í bættum almenningssamgöngum. Það verður nauðsynlegur liður í lausn samgönguvandans. Hér þarf þó útfærðar, raunhæfar og skynsamlegar lausnir. Hófsömustu áætlanir um Borgarlínu gera ráð fyrir 70 milljarða kostnaði og virðist fullkomlega óljóst hver – ef nokkur – aðkoma ríkis og annarra sveitarfélaga verður að verkefninu. Þá má hafa í huga að opinberum framkvæmdum hættir til að fara langt fram úr kostnaðaráætlunum.


Eins mætti vel ímynda sér bílaumferð Miklubrautar neðanjarðar sem losað gæti byggingaland á eftirsóttu svæði borgarinnar. Sú hugmynd kemur upphaflega frá Sjálfstæðisflokknum. Á þessu stigi er tillagan þó óútfærð og hóflegar áætlanir gera ráð fyrir 21 milljarða kostnaði. Engin svör hafa fengist um skipulag framkvæmdarinnar eða tímaramma hennar – eða nokkuð annað sem skipt gæti máli við útfærsluna.


Samfylkingin virðist hafa gleymt að huga að fjármögnun þessara risavöxnu loforða áður en farið var að framleiða markaðsefni. Við stuttlega skoðun á fjármálum borgarinnar sést glöggt að reksturinn getur ekki staðið undir framkvæmdum af þessum toga - nema með stórkostlegri og óráðlegri skuldsetningu.


Nýbirtur ársreikningur Reykjavíkurborgar sýnir glöggt að enginn afgangur er af venjubundnum rekstri borgarinnar sem staðið gæti undir framkvæmdum, fjármagnskostnaði eða fjárfestingum, nema gripið verði til frekari eignasölu. Þessi staða er uppi nú á toppi hagsveiflunnar þegar skatttekjur á hvern íbúa hafa aldrei verið hærri að raunvirði.


Þá hafa skuldir borgarinnar aukist um 45% á kjörtímabilinu, þrátt fyrir 30 milljarða aukningu á skatttekjum árlega. Langtímaskuldir, eða hin eiginlega lántaka borgarinnar, hefur aukist um fjórðung. Því er varla hægt að komast að annarri niðurstöðu en þeirri að rekstur Reykjavíkurborgar standi ekki undir frekari skuldsetningu.


Eina haldreipi meirihlutans gætu verið þær 15 milljarða arðgreiðslur frá Orkuveitunni sem meirihlutinn hefur boðað. Arðgreiðslur sem stæðu eingöngu undir agnarsmáum hluta þeirra framkvæmda sem lofað er. Eðlilegra væri að nýta svigrúm í rekstri Orkuveitunnar til að lækka þjónustugjöld til borgarbúa. Þess í stað heldur meirihlutinn álögum í hámarki og þjónustugjöldum í hámarki. Allt á kostnað borgarbúa.


Ekki eingöngu væri óráðlegt að steypa borgarsjóði í frekari skuldir svo fjármagna megi óábyrg kosningaloforð, heldur væri það sennilega beinlínis ógerlegt. Hver ætti annars að veita þá risavöxnu fyrirgreiðslu sem þyrfti til verksins?


Áætlanir Samfylkingarinnar byggjast því miður á fjárhagslegum sjónhverfingum. Stóru útgjaldaloforðin verða aldrei að veruleika fyrr en borgarsjóður hefur undirgengist heilmikla tiltekt. Auðvitað á að byrja á réttum stað. Það þarf að taka til í rekstri borgarinnar, minnka yfirbygginguna og greiða niður skuldir. Lækka álögur og þjónustugjöld. Sýna ábyrgð og ráðdeild þegar sýslað er með fjármuni borgarbúa.

留言


bottom of page