Í nýliðnum borgarstjórnarkosningum fullyrtu meirihlutaflokkarnir í borgarstjórn að öllum 12 mánaða börnum yrðu tryggð leikskólapláss strax í haust. Við loforðið var ekki unnt að standa og sitja nú tæplega þúsund börn enn föst á biðlistum eftir leikskólaplássi í Reykjavík. Það er mikilvægt að mæta þörfum þeirra fjölskyldna sem ekki hafa fengið þá þjónustu sem þau höfðu réttmætar væntingar til að njóta.
Meðalaldurinn lækkar ekki
Jafnvel þó markmið Reykjavíkurborgar um fjölgun leikskólarýma um 1.680 á næstu þremur árum myndu nást, myndi samt vanta 1.775 leikskólapláss í árslok 2026 væri miðað við nýlega spá Byggðastofnunar um fjölda barna á aldrinum 1-5 ára í höfuðborginni. Spáin gerir ráð fyrir 10.160 börnum á leikskólaaldri í árslok 2026, sem samsvarar rúmlega 37% fjölgun frá árinu 2021, en miðað við áætlanir Reykjavíkurborgar verða einungis 8.385 leikskólapláss á þeim tímapunkti.
Í nýlegu svari skóla- og frístundasviðs við fyrirspurn Sjálfstæðisflokksins kom í ljós að meðalaldur barna sem fá pláss í leikskólum Reykjavíkurborgar hefur ekki lækkað eins mikið og vonir stóðu til um. Eru börn nú að meðaltali 20,1 mánaða gömul þegar þau fá loks inngöngu á leikskóla.
Fjölbreyttar lausnir
Það er mikilvægt að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla. Ríkið hefur brugðist við því ákalli með lengingu fæðingarorlofs en Reykjavíkurborg hefur ekki tekist að sinna sínu hlutverki – að tryggja leikskólapláss strax í kjölfar orlofs. Það er mikilvægt að mæta stöðunni með fjölbreyttum lausnum enda þarfir fjölskyldna fjölbreytilegar. Vinna þarf að lausnum á borð við fjölgun leikskólarýma, eflingu dagforeldrastéttar, stuðningi við einkaframtak í leikskólamálum og loks styrkjum til þeirra sem kjósa eða þurfa að dvelja lengur heima með börnum sínum. Þannig hafa fjölskyldur úr ólíkum kostum að velja.
Foreldrastyrkur
Á borgarstjórnarfundi síðastliðinn þriðjudag lagði Sjálfstæðisflokkur til að borgin byði foreldrastyrk að fjárhæð 200.000 kr. mánaðarlega, til þeirra foreldra sem annað hvort þurfa eða kjósa að vera heima með börnin sín að fæðingarorlofi loknu, frá 12 mánaða aldri til allt að tveggja ára aldurs. Tillagan hlaut ekki samþykki en var þó vísað til áframhaldandi meðferðar borgarráðs.
Sjálfstæðisflokkurinn er meðvitaður um að fjölskyldur hafa ólíkar þarfir og þeim þarf að mæta með fjölbreyttum lausnum. Við viljum tryggja fleiri valkosti og meira val í Reykjavík!
Hildur Björnsdóttir
Commentaires