Í liðnum borgarstjórnarkosningum fengu kjósendur valið. Þeir flokkar sem boðuðu breytingar og forgangsröðun í þágu grunnþjónustu hlutu 62% atkvæða. Sjálfstæðisflokkurinn er stærsti flokkurinn í borginni. Gamla meirihlutanum var hafnað. Kjósendur völdu breytingar.
Það vakti því undrun þegar myndaður var meirihluti um óbreytta stefnu. Meirihluti sem hefur að baki færri atkvæði en þeir flokkar sem eftir standa í stjórnarandstöðu. Gamli meirihlutinn hlaut viðreisn frá Viðreisn.
Hvað sem stjórnarmyndun líður er Sjálfstæðisflokkurinn enn stærsti flokkurinn í borginni. Hlutverk okkar í sterkri stjórnarandstöðu verður ærið. Við munum veita meirihlutanum virkt málefnalegt aðhald og sofum sannarlega ekki á verðinum. Ábyrg fjármálastjórn, traust grunnþjónusta og frjálslynd gildi verða í forgrunni.
Við leggjum áherslu á niðurgreiðslu skulda í tekjugóðæri. Við teljum ótímabært að ráðast í stórtækar fjárfestingar sem kalla á stóraukna skuldsetningu. Við munum leggja fram marktækar leiðir til skuldaniðurgreiðslu. Við viljum minnka báknið, einfalda stjórnkerfið og lækka álögur á íbúa. Við vitum að traustur fjárhagur er grunnur að góðri þjónustu.
Við leggjum áherslu á lausn leikskólavandans. Það er mikilvægt jafnréttismál sem skiptir sköpum fyrir bæði fjölskyldur og atvinnulíf. Enn vantar 200 leikskólakennara til starfa í Reykjavík. Leikskólaplássum er úthlutað með fyrirvara um mannaráðningar. Fyrirséður er áframhaldandi stórtækur vandi næsta haust. Engar markvissar aðgerðir í sjónmáli. Undir þessu verður ekki setið.
Við munum þrýsta á mælanleg markmið í húsnæðismálum, aukið lóðaframboð og stórsókn í uppbyggingu íbúðarhúsnæðis. Við viljum tryggja að Reykjavík verði besti búsetukosturinn. Samkeppnishæf borg á innlenda sem alþjóðlega vísu.
Hvort heldur sem er – í stjórnarandstöðu eða meirihluta - Sjálfstæðisflokkurinn stendur alltaf fyrir frelsi og val. Einstaklingsfrelsi og atvinnufrelsi. Við viljum banna minna og leyfa meira. Borg sem skapar frjóan jarðveg fyrir sókn og framfarir. Við viljum fjölbreytta borg fyrir fjölbreytt fólk. Greiðar og vistvænar samgöngur. Höfuðborg sem setur fólk og fjölskyldur í forgang. Frelsi fyrir alla – frelsi fyrir þig.
Comments