top of page

Frjálsri samkeppni ógnað


Árið 2019 samþykkti borgarráð að stefna að fækkun bensínstöðva í borgarlandinu um helming til ársins 2025. Ákvörðunin þótti í samræmi við áherslur borgarinnar á fjölgun rafbíla enda Ísland meðal fremstu þjóða heims í rafbílavæðingu. Eftirspurn eftir jarðefnaeldsneyti myndi að líkindum dragast saman en eftirspurn eftir umhverfisvænni orkugjöfum aukast.


Fjölmargir hafa séð tækifæri í þjónustu við rafbílaeigendur. Í dag situr Orka náttúrunnar, fyrirtæki í opinberri eigu, hins vegar nær ein að uppbyggingu rafhleðslustöðva. Þónokkrir hafa reynt að sækja fram en fallið í hamlandi jarðveg fákeppni. Fyrirtæki í eigu borgarinnar hefur náð markaðsráðandi stöðu á rafhleðslumarkaði vegna náinna tengsla við landeigandann Reykjavíkurborg, samstæðusambands við einokunarfyrirtækið Veitur og aðgengis að almannafé. Fyrirkomulagið stendur frjálsri samkeppni á rafhleðslumarkaði fyrir þrifum.


Uppskipting Orkuveitunnar

Orka náttúrunnar og Veitur eru dótturfélög innan samstæðu Orkuveitunnar. Orka náttúrunnar virðist hins vegar njóta fjárhagslega góðs af samstæðusambandi við Veitur. Í lögum um Orkuveitu Reykjavíkur er þess sérstaklega getið að samkeppnisrekstur skuli ekki niðurgreiddur af einkaleyfisstarfssemi eða verndaðri starfsemi. Núverandi samstæðusamband virðist ganga í berhögg við löggjöfina og skekkir samkeppni á markaði.


Á borgarstjórnarfundi síðastliðinn þriðjudag lagði Sjálfstæðisflokkur fram tillögu um uppskiptingu rekstrareininga Orkuveitu Reykjavíkur. Þannig yrði samkeppnisrekstur Orku náttúrunnar annars vegar og Gagnaveitunnar hins vegar að fullu aðskilinn frá einokunarstarfsemi Veitna. Með uppskiptingunni mætti ná fram fjárhagslegum aðskilnaði og heilbriðgara samkeppnisumhverfi – auk heilmikils hagræðis af því að leggja niður móðurfélagið Orkuveituna. Í stuttu máli var tillagan felld.


Fákeppni engum til gagns

Reykjavíkurborg hefur ákveðið í skipulagi að fækka bensínstöðvum í borgarlandinu. Samhliða ákveður borgin að styðja við rafbílavæðingu. Í kjölfarið fer Reykjavíkurborg svo sjálf í samkeppni við einkaaðila um þjónustu við rafbílaeigendur. Fyrirtæki í eigu borgarinnar nær markaðsráðandi stöðu á rafhleðslumarkaði og stendur frjálsri samkeppni fyrir þrifum.


Það er enginn skortur á aðilum sem vilja taka þátt í rafbílavæðingunni hérlendis. Það er engin málefnaleg ástæða fyrir hið opinbera að sitja eitt að framþróuninni - útiloka einyrkja, frumkvöðla og fyrirtæki frá tækifærum framtíðar. Framþróun rafbílavæðingar og uppbygging rafhleðslustöðva verður að byggja á frjálsri samkeppni. Fákeppni er engum til gagns og kemur fyrst og síðast niður á neytendum.


Hildur Björnsdóttir Borgarfulltrúi
コメント


bottom of page