top of page

Grænsvæðagræðgi

Um þrettán ára skeið hefur Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, barist fyrir uppbyggingu atvinnustarfsemi í Elliðaárdalnum. Það er sérkennilegt pólitískt erindi. Af fjölmörgum afglöpum núverandi meirihluta eru fyrirhuguð uppbyggingaráform í Elliðaárdalnum hugsanlega alvarlegust. Græn svæði lúta í lægra haldi fyrir gróðavon borgarstjóra.


Nýverið samþykkti meirihluti borgarráðs uppbyggingu atvinnuhúsnæðis í Elliðaárdalnum og lagningu nærri 100 bílastæða í námunda við Elliðaárnar. Atvinnustarfseminni munu fylgja tíðir vöruflutningar og bílaumferð sem spilla mun friðsæld dalsins. Sjálfstæðisflokkurinn hefur ítrekað lagst gegn áformunum enda alvarleg aðför að verðmætu grænu svæði í borgarlandinu. Það er fádæma fásinna að staðsetja hjúpaða suðræna náttúru, nákvæmlega þar sem íslensk náttúra er uppá sitt besta innan borgarmarkanna.


Uppbyggingin mun fara fram þrátt fyrir hávær mótmæli íbúa og Hollvinasamtaka Elliðaárdals. Umhverfisstofnun hefur gert fjölþættar alvarlegar athugasemdir við uppbygginguna, meðal annars að rask verði á vatnasviði Elliðaánna og útivistarsvæðið skert verulega. Meirihlutaflokkarnir virtu umhverfisáhrif framkvæmdanna algjörlega að vettugi.


Þéttbýlismyndun hefur vaxið á undanliðnum áratugum. Afgerandi meirihluti Evrópubúa er nú búsettur í borgum. Búsetu í þéttu borgarumhverfi fylgja fjölmargir kostir, en búsetan takmarkar gjarnan beinan aðgang að óspilltri náttúru. Hún veldur áreiti með aukinni hljóð- og loftmengun. Það er því hverjum þéttbýlingi nauðsynlegt að eiga greiðan aðgang að grænum svæðum. Þannig má stuðla að bættri andlegri og líkamlegri heilsu en ekki síður bættum loftgæðum. Þetta hefur alþjóðaheilbrigðisstofnunin staðfest. Með hliðsjón af mannfjöldaspám og sífellt þéttari byggð mun hlutverk grænna svæða í borgarlandinu vega enn þyngra.


Sjálfstæðisflokkurinn hefur lagst alfarið gegn hvers kyns húsnæðisuppbyggingu á grænum svæðum borgarinnar og telur rétt að uppbygging svæðanna snúi eingöngu að bættri aðstöðu til útivistar og afþreyingar. Elliðaár­dal­ur­inn gegn­ir veiga­miklu hlut­verki í borgarumhverfinu - við verðum að hlúa að líf­ríki hans, byggja svæðið eingöngu upp til útivistar og tryggja að skammsýni ráði ekki för við skipulag þessa verðmæta græna svæðis. Það væri óskandi að með samtakamætti borgarbúa mætti fyrirbyggja þessa annars óafturkræfu grænsvæðagræðgi meirihlutans.


Hildur Björnsdóttir

Höfundur er borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík




Comments


bottom of page