Árlega látast yfir 10.000 Bandaríkjamenn við að falla fram úr rúminu. Jafnframt látast yfir 10.000 manns við að kafna af slysförum í svefni. Þannig látast yfir 20.000 Bandaríkjamenn árlega af þeim vestræna sið að sofa í upphækkuðu rúmi með ábreiður og kodda.
Árið 2014 var ég búsett í London. Fjölmiðlar fluttu reglulegar fréttir af yfirvofandi hryðjuverkaógn og stjórnvöld lýstu yfir neyðarástandi. Ástvinir lögðu áherslu á að ferðir mínar til vinnu yrðu ekki farnar með neðanjarðarlest – mun fremur gangandi, hjólandi eða með leigubíl. Hins vegar voru margfalt meiri líkur á að ég myndi látast í bílslysi, hjólaslysi eða við það að falla um gangstéttarbrún. Stöðugur fréttaflutningur af hryðjuverkaógn leiddi hins vegar til þess að almenningur ofmat þá tilteknu hættu, en vanmat fjölmargar aðrar.
Tæplega 3.000 manns létust í hræðilegum hryðjuverkaárásum á Bandaríkin árið 2011. Sama ár létust um 20.000 Bandaríkjamenn af slysförum í rúminu. Stöðugur fréttaflutningur af yfirvofandi hryðujuverkaógn gerði heimsbyggðina óttaslegna en fáir reyndust sérlega óttaslegnir við háttatímann.
Árlega verða um 860 slys með meiðslum í umferðinni hérlendis. Jafnframt eru áætluð 80 ótímabær dauðsföll af völdum svifryksmengunar. Um 70-80% fólks ferðast til vinnu á bifreið, flestir án þess að leiða hugann að slysatölum og dánartíðini.
Íslendingum hefur gengið vel í baráttunni við kórónaveiruna, þó margir hafi sannarlega farið illa út úr faraldrinum. Nú þegar 90% fullorðinna eru bólusettir er kórónaveirusmit ekki stærsta ógnin við líf og heilsu manna. Þegar fólk er daglega áminnt um yfirvofandi hættu með reglulega uppfærðum smittölum skynjar það hugsanlega meiri ógn en ástæða er til. Hætturnar eru allt um kring og þær algengustu fáum við sjaldnast fréttir af.
Það er lífshættulegt að vera þátttakandi í lífinu. Öll munum við óhjákvæmilega deyja. Við megum þó ekki vera svo óttaslegin við dauðann að við látum lífið fara framhjá okkur.
Afléttingar strax.
Comments