top of page

Húsnæðisskortur í borginni


Það er húsnæðisskortur í Reykjavík. Skorturinn hefur verið viðvarandi og endurspeglast í mikilli verðhækkun íbúða. Ungt fólk kemur ekki þaki yfir höfuðið og fjölskyldur flytjast til annarra sveitarfélaga. Aðgöngumiðinn á húsnæðismarkað er uppsprengdur.


Á borgarstjórnarfundi síðastliðinn þriðjudag felldi meirihluti borgarstjórnar tillögur okkar Sjálfstæðismanna um húsnæðisuppbyggingu í Reykjavík. Gerði tillagan ráð fyrir sérstakri flýtimeðferð til uppbyggingar 3.000 íbúða að Keldum, í Úlfarsárdal og á BSÍ reit. Tillagan var ekki flutt að tilefnislausu.


Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hefur áætlað 30.000 íbúða þörf á landsvísu næsta áratuginn. Fjölgunin verði meiri á fyrri hluta áratugarins, og því þurfi uppbyggingu 3.500 íbúða árlega næstu árin. Þörfin verði mest á höfuðborgarsvæðinu en þar sé jafnframt mörg þúsund íbúða uppsöfnuð þörf.


Hver ber ábyrgð á þunganum?


Borgarstjóri gefur lítið fyrir þörfina og segir óhugsandi að efla byggð í Úlfarsárdal eða að Keldum. Uppbyggingin myndi auka svo mjög á umferð, að Miklabraut hefði ekki undan. Umferðarþunginn er raunverulegt vandamál - en hver ber ábyrgð á þunganum?


Samfylking hefur haldið um stjórnartauma borgarinnar frá árinu 1994, með örstuttum undantekningum. Frá árinu 1994 eru nú liðin 27 ár – það ætti að vera drjúgur tími til að finna margvíslegar lausnir við þunganum.


Hvers vegna hefur skipulagshalli borgarinnar ekki verið leiðréttur? Hvers vegna hafa ekki verið stigin sannfærandi skref til að koma stórum vinnustöðum austar í borgina? Hvers vegna var Tækniskólanum ekki tryggð fýsileg lóð í austurborginni? Hvers vegna hefur stórfyrirtækjum og stofnunum sem nú flytja til annarra sveitarfélaga, ekki verið fundinn staður austarlega í borginni? Hvers vegna hefur ekki náðst árangur í viðræðum við stærstu vinnustaði borgarinnar, um breytilegt upphaf vinnudagsins? Hvers vegna hafa ekki verið kynntir grænir hvatar fyrir fyrirtæki sem bjóða fjarvinnu, og létta um leið á umferð?


Lausnirnar og tækifærin eru fjölmörg – en þau hafa verið vannýtt.


Ákall á raunverulegar aðgerðir

Borgarstjóri segir umræðu um húsnæðismál vera pólitískt útspil. Það er sérkennilegt viðhorf þegar húsnæðismál eru lykilmál í lífi hvers einstaklings.


Við verðum að mæta húsnæðisþörfinni – bæði þeirri uppsöfnuðu og þörfinni til framtíðar. Við verðum að skipuleggja ný svæði samhliða þéttingu byggðar á svæðum sem hafa til þess svigrúm. Við verðum að fjölga atvinnutækifærum austarlega samhliða samgöngubótum og breyttum ferðavenjum. Við þurufm ekki fleiri viljayfirlýsingar og borðaklippingar. Við þurfum raunverulegar aðgerðir.


Comments


bottom of page