top of page

Hafa þau grænan grun?

Þéttbýlismyndun hefur vaxið á undanliðnum áratugum. Afgerandi meirihluti Evrópubúa er nú búsettur í borgum. Búsetu í þéttu borgarumhverfi fylgja fjölmargir kostir, en búsetan takmarkar gjarnan beinan aðgang að óspilltri náttúru. Hún veldur áreiti með aukinni hljóð- og loftmengun. Það er því hverjum þéttbýlingi nauðsynlegt að eiga greiðan aðgang að grænum svæðum. Þannig má stuðla að bættri andlegri og líkamlegri heilsu en ekki síður bættum loftgæðum. Þetta hefur alþjóðaheilbrigðisstofnun staðfest.


OECD kynnti nýverið úttekt á húsnæðismarkaðnum hérlendis. Leiddi niðurstaðan í ljós að aðgangur að grænum svæðum í þéttbýli væri minnstur hérlendis í samanburði allra OECD ríkja. Einungis um 3,5% þéttbýlissvæða hérlendis væru skilgreind sem græn svæði, til samanburðar við 17% OECD meðaltal. Hér er ástæða til að staldra við. 


Með hliðsjón af framanritaðri úttekt, mannfjöldaspám og sífellt þéttari byggð verður hlutverk grænna svæða í borgarlandinu enn veigameira. Borgaryfirvöld hafa þó varla um það grænan grun. Réttmætar áhyggjur hafa vaknað á síðastliðnum árum þegar meirihluti borgarstjórnar hefur kynnt áform um atvinnuuppbyggingu í Elliðaárdal, húsnæðisuppbyggingu í Laugardal og landfyllingu í Skerjafirði, svo eitthvað sé nefnt. Sífellt er vegið að aðgengi fólks að ósnortinni náttúru og grænum útivistarsvæðum innan borgarmarkanna.


Fjölmargar erlendar borgir hafa staðið frammi fyrir sama freistnivanda – að hefja húsnæðisuppbyggingu á opnum grænum svæðum. Um tíma voru uppi hugmyndir um uppbyggingu húsnæðis í Central Park, sem flestum þykja fásinna í dag. Til allrar hamingju hlutu þær ekki brautargengi. Það er nefnilega hættulegt að stíga fyrsta skrefið.


Sjálfstæðisflokkurinn vill tryggja varðstöðu um græn svæði borgarinnar. Við höfum lagst alfarið gegn hvers kyns húsnæðisuppbyggingu á grænum svæðum og talið rétt að uppbygging svæðanna snúi eingöngu að bættri aðstöðu til útivistar og afþreyingar. Við verðum að gæta þess að skammsýni valdi ekki óafturkræfu tjóni á takmörkuðum grænum gæðum borgarinnar. Það er lífsgæðamál – fyrir okkur öll.

 

Hildur Björnsdóttir

Oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík
 

Comments


bottom of page