„Við höfum séð það svartara“, sagði borgarstjóri í niðurlagi ræðu sinnar í borgarstjórn á þriðjudag. Til umræðu var fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2023. Borgarstjóri reyndi að venju að fegra ískyggilega rekstraraniðurstöðu borgarsjóðs. Svo skal böl bæta að benda á annað verra.
Sexfaldur hallarekstur og óhófleg skuldaaukning
Fjárhagsáætlun borgarinnar er enginn yndislestur. Útkomuspá fyrir árið 2022 gerir ráð fyrir 15,3 milljarða halla af rekstri borgarsjóðs. Það er nær sexfalt meiri rekstrarhalli en áætlanir gerðu ráð fyrir. Ef ekki væri fyrir arðgreiðslur frá Orkuveitunni hefði hallinn verið 19 milljarðar.
Skuldir samstæðunnar jukust um 35 milljarða árið 2022. Það samsvarar 664 milljónum á viku, 95 milljónum á sólarhring og 4 milljónum á klukkustund. Áætlanir gera ráð fyrir að skuldir haldi áfram að aukast um 83 milljarða til ársins 2027. Engin áform um skipulega niðurgreiðslu skulda.
Starfsmönnum fjölgað um 25%
Starfsmenn A-hluta borgarinnar eru nú 11.703 og hefur fjölgað um 25% síðastliðin fimm ár. Yfir sama tímabil hefur íbúum borgarinnar aðeins fjölgað um 10%. Starfsmönnum fjölgar því langt umfram lýðfræðilega þróun.
Launakostnaður vegur þungt í rekstrareikningi borgarinnar. Árið 2022 var launakostnaður heil 89% af samanlögðum útsvars- og Jöfnunarsjóðstekjum. Fyrir hverjar 1.000 kr. sem útsvarsgreiðendum er gert að greiða borgarsjóði, fara því 890 kr. í laun opinberra starfsmanna. Aðeins 110 kr. standa eftir til annarra verkefna.
Árið 2023 fjölgar starfsmönnum hlutfallslega mest, eða um 13%, á sviði miðlægrar stjórnsýslu, sem hýsir skrifstofu borgarstjóra. Samhliða er leikskólum gert að halda að sér höndum í mannaráðningum og fækkar starfsólki leikskóla um 75 árið 2023. Samhliða er gert ráð fyrir að leikskólaplássum fjölgi um aðeins 109. Það eru ekki aðeins öfugmæli, heldur jafnframt aðeins dropi í haf leikskólavandans – sá dropi mun aldrei leysa hinn aðkallandi biðlistavanda.
Lækkum fasteignaskatta
Meirihlutaflokkarnir gera ráð fyrir óbreyttum álagningarhlutföllum fasteignaskatta þrátt fyrir gíðarlegar hækkanir á fasteignamati. Segja má að óreytt skatthlutfall muni leiða af sér 20% skattahækkun fyrir fólk og fyrirtæki í borginni.
Sjálfstæðismenn hafa því lagt fram tillögu um lækkun fasteignaskatta af atvinnuhúsnæði og íbúðarhúsnæði árið 2023. Álagningarhlutfall af íbúðarhúsnæði yrði 0,17% en álagningarhlutfall af atvinnuhúsnæði yrði 1,45%. Með skattalækkuninni myndi atvinnulíf halda eftir einum og hálfum milljarði af eigin verðmætasköpun, í samanburði við áætlanir meirihlutans.
Í umræðum um tillöguna birtist sá hugmyndafræðilegi ágreiningur milli Sjálfstæðismanna annars vegar og meirihlutaflokkanna hins vegar, að við teljum ekki rétt að leysa úr hallrekstri með því að seilast sífellt dýpra í vasa skattgreiðenda. Við treystum fólki og fyrirtækjum betur en hinu opinbera, til að ráðstafa eigin sjálfsaflafé og skapa úr því verðmæti, samfélaginu öllu til heilla. Við vitum nefnilega að hægt er að lækka skatta, en stækka kökuna um leið.
Ekki séð það svartara
Við Sjálfstæðismenn höfum lýst yfir miklum áhyggjum af fjárhagsstöðu Reykjavíkurborgar. Árið 2022 verður rekstrarhalli borgarsjóðs 15,3 milljarða króna og skuldir samstæðu aukast um 35 milljarða. Þá hefur starfsmönnum borgarinnar fjölgað um 25% síðastliðin fimm ár. Vandi borgarinnar er ekki tekjuvandi heldur útgjaldavandi, enda vaxa rekstrargjöld langt umfram tekjur. Eitt prósent hagræðingakrafa þvert á svið mun ekki nægja til að rétta við rekstur borgarinnar. Huga þarf að áþreifanlegri hagræðingu í rekstrinum, minni yfirbyggingu, skipulegri niðurgreiðslu skulda og hóflegri skattheimtu.
Það þarf breyttar áherslur og raunhæfar aðgerðir til að ná böndum á rekstur borgarinnar – því ég segi það satt – ég hef ekki séð það svartara.
Hildur Björnsdóttir
Oddviti Sjálfstæðisflokksins
Comments