Hjólreiðasóknin hóf formlega innreið sína í Reykjavík árið 2010 - þegar borgarstjórn samþykkti sína fyrstu hjólreiðaáætlun að frumkvæði sjálfstæðismanna. Nú ríflegum áratug síðar hefur borgarstjórn samþykkt nýja hjólreiðaáætlun fyrir tímabilið 2021-2025. Vinnu við gerð áætlunarinnar var stýrt af Katrínu Atladóttur, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks, en í áætluninni birtist metnaðarfull framtíðarsýn fyrir hjólaborgina Reykjavík. Áætlunin var unnin í þverpólitískri sátt og samþykkt á borgarstjórnarfundi í gærdag, í þverpólitískri sátt.
Síðustu ár hefur langstærstur hluti borgarbúa farið leiðar sinnar á bíl. Nýlegar mælingar sýna að 63% höfuðborgarbúa ferðast til vinnu sem bílstjórar á einkabíl. Hins vegar sýna sömu mælingar að aðeins 35% höfuðborgarbúa kjósa helst að ferðast með þeim hætti til vinnu. Þannig myndu um 55% íbúanna helst vilja ferðast til vinnu á reiðhjóli, fótgangandi eða með strætó. Borgarskipulagið þarf að taka mið af þessum breyttu þörfum. Við þurfum að skapa umhverfi sem ýtir undir nýja valkosti og mætir óskum íbúa.
Frá því fyrsta hjólreiðaáætlun Reykjavíkur var samþykkt árið 2010 hefur hlutdeild hjólreiða í öllum ferðum aukist úr 2% í 7%. Þróunin sýnir glöggt hvernig skýr markmið, metnaður og fjárfesting geta innleitt breytingar sem margir töldu útilokaðar – ekki síst í blautu og vindasömu Reykjavík. En við ætlum að gera enn betur.
„Fyrsta markmið nýrrar hjólreiðaáætlunar er að hlutdeild hjólreiða í öllum ferðum verði a.m.k. 10% árið 2025. Það þýðir ekki að 10% íbúa eigi að fara allra sinna ferða á hjóli, heldur að fólk geti valið um að ferðast með þeim hætti sem hentar hverju sinni. Kannanir sýna að mun fleiri vilja hjóla en gera það í raun. Þess vegna þarf að gera enn betur í uppbyggingu innviða fyrir hjól, svo fólk hafi raunverulegt val um að velja hjólið, hvort sem það er reiðhjól eða hlaupahjól, þegar það hentar best,” segir Katrín Atladóttir, formaður hjólreiðaáætlunar.
Nýsamþykkt hjólreiðaáætlun Reykjavíkurborgar boðar stórsókn í bættum hjólainnviðum höfuðborgarinnar. Hún er hluti af heildarsýn á samgöngur, byggðaþróun og lífsgæði í lifandi borg. Hún samræmist samgöngusáttmála ríkis og sveitarfélaga, svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins og aðalskipulagi Reykjavíkur. Hún boðar stórbætta hjólreiðainnviði, lengra og samfelldara leiðarkerfi, betri vetrarþjónustu og bætta hjólreiðamenningu, svo fátt eitt sé nefnt. Hún er fyrsta skrefið í átt að hjólreiðaborg á heimsmælikvarða.
Hildur Björnsdóttir Borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks
Comments