top of page

Hjartað í Vesturbænum

Síðastliðið ár varð Knattspyrnufélag Reykjavíkur 120 ára. Fyrstu heimildir um aðstöðu félagsins má finna um aldamótin 1900. Þar segir að völlur félagsins hafi verið ósléttur, grýttur, holóttur og illa strikaður. Stærð hans hafi jafnvel verið með öllu óákveðin, því takmörk voru sett af handahófi. Enginn leikmanna hafi átt viðeigandi knattspyrnuskó svo fótabúnaður var með margvíslegu móti. Sumir klæddust jafnvel kúskinns- eða selskinnsskóm. Knötturinn hafi þótt óþægilegur viðureignar, linur og gúlóttur og sá hafi þótt fimastur leikmanna sem sparkaði knettinum lengstan veg.


Öllum þessum árum síðar hefur starfsemi KR tekið miklum breytingum og talsverðum framförum. Ekkert hverfisíþróttafélag innan Reykjavíkur bíður uppá samskonar úrval íþróttagreina og KR. Samt sem áður er fasteignamat íþróttamannvirkja hvergi lægra en í Vesturbæ Reykjavíkur. Hverfisskipting íþróttafélaga gefur til kynna að þáttakan barna í íþróttastarfi sé hvergi lægri en hjá KR – nema þá í Breiðholti. Borgin hefur þó brugðist við stöðunni í Breiðholti með verulegri uppbyggingu íþróttamannvirkja fyrir ÍR. Nú hlýtur röðin að vera komin að KR!


Í ársbyrjun 2017 var skipaður starfshópur sem annast átti viðræður Reykjavíkurborgar og KR um framtíðaruppbyggingu á umráðasvæði félagsins. Vinnunni lauk sama ár með undirritun viljayfirlýsingar milli borgarstjóra og formanns KR. Ákveðið var að vinna nýtt deiliskipulag fyrir svæðið samkvæmt fyrirliggjandi tillögum. Í kjölfarið yrði gengið frá samningi milli aðila um framkvæmdina, stofnkostnað, tímaáætlanir og aðrar útfærslur. Frá þessum tíma hefur lítið gerst. Borgin hefur látið hjá líða að klára deiliskipulag, og málið því statt í öngstræti.


Nýlega var unnin ný íþróttastefna fyrir Reykjavíkurborg. Hún hefur það lykilmarkmið að jafna aðstöðu til þátttöku, með áherslu á að jafna aðstöðumun. Í stefnunni er fjallað um aðstöðumál íþróttafélaga og þess getið að fara þurfi í uppbyggingamál hjá KR við Frostaskjól. Þar verði um að ræða mannvirki, knatthús, íþróttahús, knattspyrnuvöll og húsnæði fyrir félagstengda þjónustu. Jafnframt verði gert ráð fyrir verulegu magi íbúðabygginga á svæðinu. Þetta verði hins vegar ekki unnt að leysa fyrr en deiliskipulagsvinnu verður lokið. Eftir hverju erum við að bíða?


Við heimsbyggðinni blasir nú heimsfaraldur sem óhjákvæmilega mun hafa ófyrirséðar neikvæðar efnahagsafleiðingar fyrir Reykjavíkurborg. Undirrituð hefur kynnt tillögur Sjálfstæðisflokks um mótvægisaðgerðir vegna stöðunnar. Ein tillagan miðar að hröðun opinberra framkvæmda svo halda megi hjólum atvinnulífsins gangandi - verja störf og afkomu heimilanna. Meðal framkvæmda sem mætti flýta er löngu tímabær uppbygging íþróttamannvirkja við Frostaskjól.


Samningar við borgina hafa minnt óþægilega á aðstöðu félagsins um aldamótin 1900 – grýttir, holóttir og með öllu óákveðnir. En tölfræðin er öll á sama veg. Knattspyrnufélag Reykjavíkur er næst í röðinni. Þar er þörfin brýnust. Ég skora á borgina að ljúka fyrirhugaðri deiliskipulagsvinnu og hraða nauðsynlegri uppbyggingu. Það er tímabært stuð, fyrir hjartað í Vatnsmýrinni.




Comments


bottom of page