top of page

Horfumst í augu við niðurstöðurnar

Niðurstöður úr PISA 2022 bera íslensku skólakerfi ekki fagurt vitni. Þær sýna versnandi árangur íslenskra skólabarna sem mælast undir OECD meðaltali í stærðfræðilæsi, lesskilningi og læsi á náttúruvísindi. Sé einungis litið á árangur grunnskólabarna í Reykjavík mælist færni þeirra jafnframt undir OECD meðaltali og Norðurlandameðaltali í öllum mældum greinum.

 

Lægra hlutfall drengja en stúlkna nær grunnhæfni í bæði lesskilningi og læsi á náttúruvísindi. Þannig ná 61% drengja grunnhæfni í læsi á náttúruvísindi á móti 68% stúlkna. Kynjamunurinn er meiri þegar kemur að lesskilningi en þar ná 53% drengja grunnhæfni á móti 68% stúlkna. Þó má undirstrika að hvort sem litið er til stúlkna eða drengja, er niðurstaðan óviðunandi.

 

Þá vekur það töluverðar áhyggjur að nemendur sem eiga foreldra í lakari félags- og efnahagslegri stöðu koma verr út í könnuninni. Merki eru um að ójöfnuður aukist hvað varðar PISA námsárangur á Íslandi, einkum í lesskilningi. Þessi niðurstaða er skýrasta birtingarmynd þess að ekki megi varpa ábyrgðinni alfarið á heimilin, enda hafa ekki öll börn slíkan stuðning heima fyrir.

 

Úrbætur og framfarir

Eist­land mælist efst Evr­ópu­þjóða í PISA. Krist­ina Kallas, mennta­málaráðherra Eistlands, seg­ir mik­il­vægt að upp­lýsa skól­ana um gengi nem­enda þeirra, svo skól­arn­ir geti metið styrk­leika sína og horft til þess sem þarf að bæta. Eistar nýti niðurstöðurnar til að skipuleggja skólastarfið með það að markmiði að styrkja nemendur.


Sömu sögu má segja af Finnlandi sem mælist efst Norðurlandaþjóða. Þar hafa skólastjórnendur aðgang að niðurstöðum PISA og nota gögnin til að meta tækifæri til úrbóta og stuðla að framförum.

 

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks telja nauðsynlegt að fara sömu leið og lögðu fram tillögu þess efnis á fundi borgarstjórnar síðastliðinn þriðjudag. PISA könnunin er gagnleg mæling á skólakerfum innan OECD, sem því miður hefur gefið skólakerfi Reykjavíkur slæma einkunn. Kostir þess að afla frekari upplýsinga um niðurstöður grunnskóla Reykjavíkur í PISA 2022 eru fjölmargir, en með upplýsingaöfluninni mætti gefa skólastjórnendum öflugt tæki til að greina vankanta í skólastarfinu og ráðast í umbætur.

 

Jöfn tækifæri og virk þátttaka

Reykvískir skattgreiðendur munu á næsta ári verja tæplega 66 milljörðum í kerfi leik- og grunnskóla í borginni, en bæði kerfi hafa mikilvægu hlutverki að gegna þegar kemur að málþroska og læsi barna. Það er eðlilegt að borgarstjórn geri þá kröfu að kerfin sem við stýrum og fjármögnum skili árangri. Til þess þarf að nýta aðgengilegar upplýsingar svo skólarnir geti sett sér mælanleg markmið í þágu umbóta og framfara.

 

Skólakerfið er eitt mikilvægasta jöfnunartækið sem íslenskt samfélag býr yfir. Það er mikilvæg grunnstoð sem verður að geta tryggt öllum börnum þá grunnfærni sem reynast mun nauðsynleg svo þau geti notið jafnra tækifæra og orðið virkir þátttakendur í okkar samfélagi.




Comments


bottom of page