top of page

Kraftur í sérhverju barni

Á dögunum var frumsýnd áhrifarík heimildamynd Sylvíu Erlu Melsted, um lesblindu. Heimildamyndin segir sögu einstaklinga sem mætt hafa áskorunum og mótlæti innan skólakerfisins. Viðmælendur virtust eiga það sammerkt að hafa af seiglu og áræðni fundið draumum sínum farveg, þrátt fyrir áskoranir lesblindunnar. Allar frásagnir eiga þó ekki svo farsælan endi. Heimildarmyndin undirstrikar mikilvægi þess að skólakerfið tryggi einstaklingsmiðaða nálgun - að öll börn fái jöfn tækifæri til að efla og þroska hæfileika sína.


Talið er að allt að 20% fólks glími við einhvers konar lesblindu. Lesblinda er sértæk þroskaröskun á námshæfni í lestri, skrift, stafsetningu eða stærðfræði, auk þess sem hún getur birst í slæmu tímaskyni og takmarkaðri ratvísi. Þeir sem glíma við lesblindu sýna þó gjarnan framúrskarandi færni á öðrum sviðum – svo sem í verklegum greinum og listrænni sköpun. Það er mikilvægt að skólakerfið virkji kraftinn í sérhverju barni - tryggi fjölbreytt námsval og viðeigandi stuðning svo öll börn finni hvatningu til persónulegra framfara.


Íslensku skólakerfi er vandi á höndum. Við erum undir OECD-meðaltali í öllum mældum námsgreinum og mælumst verst allra Norðurlandaþjóða. Ísland er á niðurleið í stærðfræðilæsi, lesskilningi og vísindalæsi samkvæmt niðurstöðum PISA-kannana. Drengir eru helmingi líklegri en stúlkur til að flosna uppúr námi og um þriðjungur drengja getur ekki lesið sér til gagns að loknu grunnskólanámi. Um þriðjungur framhaldsskólanema lýkur ekki námi og geðræn vanlíðan ungmenna hefur aukist síðustu ár. Hérlendis er lægsta menntunarstig allra Norðurlandaþjóða og mestur munur á getu nemenda af erlendum uppruna og innlendum. Sértækum þörfum er ekki mætt. Staðan er alvarleg.


Íslenskt skólakerfi hefur brugðist fjölda barna. Við drögumst aftur úr í samanburði þjóða. Ætli Íslendingar að standa fremstir í efnahagslegum og félagslegum samanburði þarf að lyfta grettistaki í menntamálum. Ætli skólakerfið að virkja sérhvern einstakling til þátttöku í okkar samfélagi þarf að mæta ólíkum þörfum – tryggja fjölþættar lausnir og fjölbreytt námsmat - meiri hreyfingu og aukið vægi list- og verkgreina í skólastarfi.


Ég trúi því að sérhvert barn hafi eitthvað mikilvægt fram að færa - að eitt verðugasta verkefni skólakerfisins verði ávallt að tryggja öllum börnum jöfn tækifæri til að leita hæfileika sinna - og efla með þeim sjálfstraust til að skapa úr hæfileikum sínum tækifæri og verðmæti. Það byggir á trú minni á einstaklinginn og samfélag þar sem enginn er skilinn eftir.

Comments


bottom of page