top of page

Lækkum fasteignaskatta í Reykjavík

Nýverið var kynnt nýtt fasteignamat fyrir árið 2023, sem hækkar heild­armat fast­eigna á Íslandi um tæp tuttugu prósent milli ára. Þetta er um­tals­vert meiri hækk­un en til­kynnt var um fyr­ir ári síðan, þegar fast­eigna­mat hækkaði um 7,4% á land­inu öllu. Þetta er jafnframt umtalsvert meiri hækkun en áætlanir borganir gerðu ráð fyrir (6,6%).


Hækkanir á fasteignamati leiða óhjákvæmilega til skattahækkana á heimili og fyrirtæki. Ef álagningarprósentum verður ekki breytt, munu fasteignaeigendur nú fyrirsjáanlega verða fyrir skattahækkunum sem nema milljörðum árlega, umfram það sem áður var áætlað. Eina skynsamlega viðbragð sveitarfélags við hækkuninni er samsvarandi lækkun skattprósentu - enda kostar það borgina ekki meira að þjónusta fasteignaeigendur þó fasteignamat hafi hækkað.


Skattahækkun á heimilin

Meðal fasteignamat í Reykjavík er 53,5 milljónir en verður með hækkuninni 64,7 milljónir árið 2023, sem er rúmlega ellefu milljóna króna hækkun. Að jafnaði munu því fasteignaskattar á meðalíbúð í Reykjavík hækka um rúmlega 20 þúsund krónur árlega, ef álagningarhlutföllin haldast óbreytt. Þetta kemur fram í útreikningum hagfræðideildar Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.

Hækkandi fasteignamat íbúðarhúsnæðis er óhjákvæmileg afleiðing hækkandi húsnæðisverðs í borginni. Lóðaskortur undanliðinna ára og hæg húsnæðisuppbygginng hafa sannarlega verið meðal meginástæðna þess að fasteignaverð hefur farið hækkandi. Það er óviðunandi að stórfelldar hækkanir á húsnæðisverði skuli sjálfkrafa leiða til samsvarandi skattahækkana. Skattgreiðendur eiga ekki að þurfa að sætta sig við aukna skattbyrði, án þess að neinar þær breytingar hafi orðið á högum þeirra sem réttlætt geta slíka skattahækkun, svo sem frekari eignakaup eða hækkandi tekjur.


Skattahækkun á atvinnulíf

Samkvæmt nýbirtu fasteignamati er hækkun mats atvinnuhúsnæðis 10,2% á landinu öllu. Án breytinga á álagningarprósentunni þýðir þetta samsvarandi skattahækkun á atvinnulíf, án þess að hækkuninni fylgi aukin þjónusta til fyrirtækjanna í borginni.


Í nýlegu erindi Félags atvinnurekenda til sveitastjórna segir að ef ekki verði gerðar breytingar á skattprósentunni fyrir næsta ár myndu tæpir þrír milljarðar bætast við skattbyrði atvinnulífsins árlega. Jafnframt sagði að hækkun álagðra fasteignaskatta frá árinu 2014 til ársins 2022 myndi nema um 87%. Fyrirtæki þyrftu að leita allra leiða til að velta ekki hækkunum út í verðlag, nú þegar jafnframt eru gríðarlegar hækkanir á aðföngum, verðbólgan sú hæsta um árabil og kjaraviðræður framundan. Þriggja milljarða skattahækkun sveitarfélaganna væri ekki það sem atvinnulífið þyrfti á að halda við þessar aðstæður.


Tryggjum sanngjarna skattheimtu

Á borgarstjórnarfundi í dag mun Sjálfstæðisflokkurinn leggja til lækkun fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði og íbúðarhúsnæði um næstu áramót. Með lækkuninni verði brugðist við þeirri gríðarlegru hækkun fasteignamats sem kynnt var á dögunum. Sjálfstæðisflokkurinn stendur nefnilega með fólkinu í borginni þegar skóinn kreppir. Við viljum draga úr álögum á fólk og fyrirtæki – og tryggja sanngjarna skattheimtu í Reykjavík.





Comentarios


bottom of page