top of page

Lækkum skatta í Reykjavík

Reykjavíkurborg siglir í gegnum fordæmalaust tekjugóðæri. Tekjurnar hafa hækkað langt umfram verðlagsbreytingar og íbúaþróun. Þrátt fyrir auknar tekjur er grunnþjónusta borgarinnar í ólagi. Þú borgar meira en færð minna. Lífsgæði mælast verst í Reykjavík. Höfuðborgin er ekki í forystu.


Það er morgunljóst að tekjugóðærið hefur ekki leitt af sér bætta grunnþjónustu. Foreldrar þurfa reglulega að taka frí frá vinnu vegna manneklu á leikskólum. Hundruðir barna sitja föst á biðlistum eftir leikskólaplássi eða daggæslu. Það er húsnæðisskortur í borginni, heimilislausum hefur fjölgað og hreinlætismál eru í ólestri. Ánægja mælist minnst í Reykjavík. Við þurfum breytingar.


Við munum gera betur

Útsvar í Reykjavík er í lögleyfðu hámarki. Fasteignamat hefur hækkað verulega og borgarbúar greiða nú hærri krónutölu í fasteignagjöld en áður. Rekstrarárangur Orkuveitunnar hefur ekki verið nýttur til gjaldskrárlækkana. Fjármálastjórn borgarinnar er í ólestri.


Lækkun útsvars er hagsmunamál fyrir alla þjóðfélagshópa. Útsvarsprósentan hefur mikil áhrif á ráðstöfunartekjur láglaunafólks. Einstaklingur með lágmarkslaun greiðir um helmingi hærri fjárhæð í útsvar til sveitarfélags, en í tekjuskatt til ríkisins. Lækkaðar álögur skipta borgarbúa máli.


Sjálfstæðisflokkurinn stendur fyrir ábyrga fjármálastjórn og áherslu á bætta grunnþjónustu. Sveitarfélög með stöðugan fjárhag bjóða bestu þjónustuna. Það sýnir sig í nágrannasveitarfélögum. Við trúum á lítil opinber afskipti og lítil opinber umsvif. Við ætlum að minnka yfirbygginguna og spara í stjórnkerfinu. Við ætlum að minnka báknið. Við ætlum að hagræða í rekstrinum og skila umframfé aftur til borgarbúa. Við munum gera betur.


Leyfum íbúunum að njóta

Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að lækka útsvar í Reykjavík. Það er stefna flokksins að útsvarið verði lækkað í fjórum þrepum, niður fyrir 14% fyrir lok næsta kjörtímabils. Rétt er að íbúar njóti þess þegar tekjur borgarinnar aukast langt umfram verðlag og íbúaþróun.


Sjálfstæðisflokkurinn óskar eftir þínu umboði svo lækka megi skatta í Reykjavík.
Comments


bottom of page