top of page

Kannski er digurbarkalegt að kalla smáborgina Reykjavík heimsborg. Hún er í það minnsta ekki stórborg. En í smáborgarlífinu þrífst sannarlega heimsborgarmenning.


Marshall húsið iðar nú af lífi. Þar sem nú blómstrar myndlist var áður síldarbræðsla – í húsi sem glataði hlutverki sínu þegar síldin hvarf. Vélasalir og illa lyktandi lýsisþrær breyttust í björt og glæslileg húsakynni fyrir myndlist. Hátt er til lofts og vítt til veggja.

Gluggarnir afhjúpa glæsitogara bundna við bryggju og hvítklætt fiskverkafólk á fleygiferð. Lýsisifnykurinn er horfinn, þó enn staldri við örlítill keimur, í virðingarskyni við sögu hússins. Það er fín blanda.


Þegar í bræðsluhúsið er komið blasir við heimsþekkt list og minna þekkt verk - afurðir starfandi og nýhorfins listafólks, sem sett hefur svip á myndlistarlíf borgarinnar. Hvað styður annað; Nýlistasafnið, Kling og Bang og Stúdíó Ólafs Elíassonar. Heimslist lyftir íslenskum verkum. Um leið sést glöggt að myndlistarlíf borgarinnar er blómlegt, á vel heima með því besta.


Á jarðhæð hanga úr lofti ævintýraleg verk eftir Ólaf Elíasson – flest gerð úr veðruðu rekaspreki, sjóreknum plastbrúsum, veiðafæratægjum, korkhringjum, netakúlum og baujuflöggum í sterkum litum - hálfgerðu drasli sem listamaðurinn lét safna í fjöru norður á Ströndum.


Mislitum málmgjörðum var bætt við, allt hengt upp í örmjóum stálþráðum með níðþungum segli neðst sem virkar líkt og lóð. Ólafur kallar verkin áttavita. Raunar eru þau gamaldags seguláttavitar því seglarnir vísa norður og suður í átt að pólum jarðar.


Þessir skrautlegu áttavitar vekja upp hughrif um himingeiminn. Hverdagsleg íslensk rekafjara verður hluti af fjarlægum stjörnuþokum. Ótrúlega einfalt, en heillandi galdur engu að síður.


Verk Ólafs Elíassonar má finna á virtustu söfnum heims. Gallerí keppast um að fá hann til samstarfs. Erlend einkasöfn kaupa verk hans. Fólk ferðast heimsálfa á milli til að skoða list hans. Tengsl hans við Ísland eru mikill fengur fyrir listalífið - hann dregur athygli umheimsins að íslenskri myndlist.


Listamenn á borð við Ólaf Elíasson eru atvinnuskapandi. Fagfólk úr fjölmörgum starfsgreinum hefur viðurværi af listsköpun hans – beint eða óbeint. Starfsemi Ólafs - sem er umfangsmeiri erlendis en hérlendis – er hrein viðbót við atvinnulífið. Hún byggir á því sem hann skapar, oftast úr hráefni sem kostar lítið – líkt og draslið úr rekafjörunni sem hangir nú í gömlu síldarbræðslunni. Afraksturinn leiðir ekki til spurninga um beitarþol, ofveiði eða náttúruspjöll.


Marshallhúsið sem áður hýsti síldarbræðslu hýsir nú myndlist. Atvinnuskapandi list tók við af atvinnuskapandi síld. Húsið er vitnisburður um gott samstarf öflugs fyrirtækis, höfuðborgar og listalífs. Við þurfum meira af slíku. Listin er uppspretta tækifæra. Hún er ekki takmökuð auðlind, ólíkt síldinni sem hvarf.


Comments


bottom of page