top of page

Metnaðarfull markmið en sporin hræða

Á dögunum undirritaði borgarstjóri samkomulag við Innviðaráðuneytið og Húsnæðis- og mannvirkjastofnun um aukið framboð íbúðarhúsnæðis í Reykjavík. Markmið samkomulagsins er að fjölga íbúðum í Reykjavík um 16 þúsund næstu tíu árin. Metnaðarfullt markmið en sporin hræða.

 

Viðvarandi skortstaða

Húsnæðisskorturinn í Reykjavík hefur verið viðvarandi og  endurspeglast í mikilli verðhækkun íbúða. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hefur áætlað 35 þúsund íbúða þörf á landsvísu til ársins 2032. Þörfin verði meiri á fyrri hluta tímabilsins, og því þurfi sérlega kröftuga uppbyggingu íbúða árlega næstu árin. Þörfin verði mest á höfuðborgarsvæðinu en þar sé jafnframt mörg þúsund íbúða uppsöfnuð þörf vegna takmarkaðrar uppbyggingar, aukinnar fólksfjölgunar og hækkandi lífaldurs. Haldi bilið milli fjölda byggðra íbúða og fólksfjölgunar að breikka má vænta þess að fasteignaverð haldi áfram að hækka - og fasteignamarkaður reynast fólki enn torveldari.


Höfuðborgin ekki í forystu    

Árlega boðar borgarstjóri til fundar í Ráðhúsi Reykjavíkur um húsnæðisuppbyggingu í Reykjavík. Samhliða sendir hann 64 síðna bækling um uppbygginguna í hvert einasta hús á höfuðborgarsvæðinu. Ávallt segir hann uppbygginguna framundan sögulega – en lætur hjá líða að nefna að uppbyggingin mætir aldrei fyrirliggjandi þörf á markaði.


Á sameiginlegum fundi HMS og Samtaka iðnaðarins fyrir áramót, var kynnt nýleg íbúðatalning fyrir landið allt. Niðurstöður sýndu glöggt hvernig uppbygging hefur dregist saman í Reykjavík en aukist á öðrum svæðum. Samkvæmt íbúðaspá er gert ráð fyrir að fullbúnum íbúðum í Reykjavík fari fækkandi á næstu tveimur árum en að annars staðar á höfuðborgarsvæðinu muni þeim fjölga nokkuð. Höfuðborgin er ekki í forystu og þeirri þróun þarf að snúa við.


Fjölbreyttir kostir fyrir fólk á öllum æviskeiðum

Vitanlega á höfuðborgin að taka forystu í málaflokknum. Borgin þarf að leggja áherslu á fjölbreytta valkosti á húsnæðismarkaði fyrir fólk á öllum æviskeiðum. Tryggja þarf úrval hagkvæms húsnæðis fyrir ungt fólk og fjölbreytta búsetukosti fyrir fjölskyldur um alla borg, en jafnframt þarf að huga sérstaklega að eldri Reykvíkingum. Tryggja þarf nægt lóðaframboð undir umfangsmikla uppbyggingu fjölbreyttra búsetukosta fyrir eldri kynslóðir, þar sem miðlæg þjónusta og afþreyting er fyrir hendi. Gera þarf fólki kleift að búa heima svo lengi sem það kýs. Forsenda þess er öflug og samræmd heimaþjónustu og heimahjúkrun. Samhliða þarf að gera stórátak í byggingu hjúkrunarheimila í samstarfi við ríkið.

 

Það gleymist nefnilega gjarnan hve stór hópur eldri Reykvíkinga, óskar þess eindregið, eða hefur jafnvel knýjandi þörf til, að skipta um húsnæði. Með því að svara eftirspurn þessa hóps eftir fjölbreyttari húsnæðiskostum má skapa nauðsynlega hringrás á fasteignamarkaði. Mörg gætu hugsað sér að rýma stærra húsnæði sem hentað gæti fjölskyldum, ef til boða stæði hentugt húsnæði fyrir eldra fólk. Þetta myndi ekki síst reynast vel innan hverfa sem nú hafa elst lýðfræðilega, og hafa að geyma verulega vannýtta innviði fyrir barnafólk.

 

Sveigjanleiki og lipurð

Þeir flokkar sem nú fara með áhrif í borginni hafa sofið á verðinum. Sannarlega hafa verið kynnt metnaðarfullt áform um uppbyggingu 16 þúsund íbúða í Reykjavík næstu 10 árin - en sporin hræða og full ástæða að taka slíkum loforðum með gát.

 

Metnaðarfullum markmiðum í húsnæðismálum verður ekki náð nema til komi raunhæfar aðgerðir – enda húsnæðisþörfin knýjandi. Hér duga ekki fagurgalar og orðin tóm. Ef við viljum að Reykjavík verði eftirsóknarverður búsetukostur til framtíðar, þarf að tryggja úrval húsnæðiskosta í lifandi borgarumhverfi sem hæfir ölllum kynslóðum. Mæta þarf húsnæðisþörfinni með kröftugri framfylgd húsnæðisáætlana samhliða skipulagi nýrra svæða. Tryggja þarf sveigjanlegri skipulagsskilmála, stafrænar lausnir, lipurri stjórnsýslu, lægri álögur og sveigjanlegra regluverk fyrir byggingaiðnað í Reykjavík. Einungis þannig náum við raunverulega þeim metnaðarfullu markmiðum sem að er stefnt.

 

Hildur Björnsdóttir

Oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík





 

 

 

 

 

 

Comments


bottom of page