top of page

Níu milljón stundir

Árið 2019 áætluðu Samtök iðnaðarins mikla hagkvæmni geta falist í minni umferðartöfum á höfuðborgarsvæðinu. Ef dregið yrði úr umferðartöfum um eingungis 15% mætti ná fram 80 milljarða króna ábata fyrir fólk og fyrirtæki á einungis fáum árum.

 

Á þessum tíma höfðu umferðartafir aukist um nærri 50% á skömmum tíma og áætluðu samtökin að borgarbúar sólunduðu níu milljón klukkustundum í umferðartafir árlega. Þessar tafir samsvara um 40 klukkustundum – eða heilli vinnuviku - á hvern höfuðborgarbúa árlega.

 

Valfrelsi og sveigjanleiki

Það er lífsgæðamál að bæta samgöngur á höfuðborgarsvæðinu. Það var því fagnaðarefni þegar samgöngusáttmáli höfuðborgarsvæðisins var undirritaður árið 2019 en hann tryggði stóraukin framlög til nauðsynlegra samgönguframkvæmda á svæðinu. Tæp 90% af framkvæmdakostnaði yrði greiddur af ríkinu en sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu myndu greiða það sem eftir stæði yfir 15 ára tímabil, í réttu hlutfalli við íbúafjölda.

 

Sáttmálinn skyldi tryggja breiða fjárfestingu í fjölbreyttum samgöngum. Stærstum hluta fjármagnsins skyldi varið til stofnvegaframkvæmda og umferðaröryggis, því næst skyldi fjárfest í öflugum almenningssamgöngum og loks bættum innviðum fyrir gangandi og hjólandi.

 

Frá undirritun sáttmálans hafa fulltrúar Sjálfstæðisflokks undirstrikað mikilvægi þess að gætt verði að tímaáætlun framkvæmda og ráðdeild hvað varðar framkvæmdakostnað. Með sáttmálanum þyrfti að tryggja frelsi og val um fjölbreyttar samgöngur - einn fararmáti skyldi ekki útiloka annan - framtíðin ætti að fela í sér valfrelsi og sveigjanleika.

 

Áætlanir samgöngusáttmála verði endurmetnar

Tæpum fjórum árum eftir undirritun sáttmálans ríkir hins vegar enn mikil óvissa um fjármögnun hans. Jafnframt kom nýverið í ljós að framkvæmdir við Arnarnesveg og Sæbrautarstokk voru stórlega vanáætlaðar, langt umfram verðbætur. Að auki hefur ekki verið lokið við neina þeirra flýtiframkvæmda sem tilgreindar voru sem forgangsverkefni í sáttmálanum.

 

Það skiptir okkur sjálfstæðismenn máli að áætlanir fyrir svo veigamikil verkefni séu vandaðar og byggðar á skýrum forsendum. Við teljum því mikilvægt að framkvæmda- og kostnaðaráætlanir samgöngusáttmálans verði endurmetnar, með það fyrir augum að tryggja farsæla framvindu og framkvæmd nauðsynlegra samgöngubóta í Reykjavík.

 

Fjölbreyttar þarfir og frjálsir valkostir

Sjálfstæðisflokkurinn telur nauðsynlegt að ráðast í umfangsmiklar samgöngubætur á höfuðborgarsvæðinu – með hliðjsón af fjölbreyttum þörfum og frjálsum valkostum. Úrbæturnar þurfa að byggja á raunhæfum og ábyrgum áætlununum - og þær þarf að framkvæma af skynsemi og festu.

 

Við þurfum að tryggja borgarumhverfi þar sem níu milljón klukkustundum er ekki sólundað í umferðartafir - heldur varið í verðmætasköpun og lífsgæði.

 

Hildur Björnsdóttir

Oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík
Commentaires


bottom of page