top of page

Ráðningabann í Reykjavík

Við árslok 2021 munu 19% af vinnandi fólki borgarbúum starfandi hjá Reykjavíkurborg. Þá mun störfum í borginni hafa fjölgað um 622 á tveggja ára tímabili. Fimmti hver vinnandi íbúi borgarinnar mun verða starfsmaður Reykjavíkur.


Fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir 2021 er enginn yndislestur. Í tekjugóðæri undanliðinna ára var báknið stækkað og tækifæri til skuldaniðurgreiðslu vannýtt. Meirihlutinn hefur haldið frjálslega um rekstur borgarsjóðs síðustu kjörtímabil. Niðurstaðan er stóraukin skuldsetning samstæðunnar. Við árslok 2021 mun skuldaaukningin nema 114 milljörðum króna á kjörtímabilinu. Það samsvarar um 870 þúsund króna skuldaaukningu á hvern borgarbúa eða nærri 3,3 milljóna króna skuldsetningu á klukkustund.


Áætlunin gerir jafnframt ráð fyrir því að fimmti hver vinnandi borgarbúi verði borgarstarfsmaður. Starfsfólki borgarinnar muni fjölga um 622 á tveggja ára tímabili. Fjölgunin minnir helst á nýlegar stjórnkerfisbreytingar meirihlutans sem skiluðu engri hagræðingu - eða samantekt á starfslýsingum í miðlægri stjórnsýslu sem samanstóð af 600 blaðsíðum. Síðufjöldinn talar sínu máli.


Samkvæmt fjöldatölum Hagstofunnar eru nú 65.562 starfandi einstaklinga með lögheimili í Reykjavík. Þar af munu 12.250 starfa hjá Reykjavíkurborg í árslok 2021. Það er ósjálfbært að ætla 19% af vinnandi fólki að þiggja laun frá Reykjavíkurborg. Það er ósjálfbært að ætla sér frekari fjölgun opinberra starfsmanna.


Ég legg til að sett verði ráðningarbann á Reykjavíkurborg til tveggja ára. Undanskilin banninu verði þjónusta á sviði velferðar og menntunar. Fjölgun opinberra starfsmanna er rangt viðbragð við auknu atvinnuleysi. Mikilvægasta atvinnuskapandi aðgerðin verður alltaf sveigjanlegra regluverk, lægri álögur og myndarlegri stuðningur við atvinnulíf. Þannig sköpum við skilyrði til verðmætasköpunar – verjum störf og sköpum tækifæri til viðspyrnu.

Comments


bottom of page