Reykjavíkurborg er eitt sex sveitarfélaga sem falla á öllum þremur lágmarksviðmiðum eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga. Af tíu stærstu sveitarfélögum landsins eru aðeins tvö í þessari stöðu, Reykjavíkurborg og Árborg. Í síðarnefndu sveitarfélagi hefur verið boðað til aðgerða en í Reykjavík þykir þetta rútínustaða.
Sveitarfélagi ber að líta það alvarlegum augum, þegar eftirlitsnefndin gerir athugasemdir við rekstur þess. En brúnirnar ættu að þyngjast enn frekar, þegar í ljós kemur að sveitarfélagið hefur fallið á öllum þremur lágmarksviðmiðum. Ekki síst þegar um er að ræða stærsta sveitarfélag landsins, sem hefur fordæmalaus tækifæri til tekjuöflunar.
Rekstur borgarinnar ósjálfbær
Stóra myndin í rekstri borgarinnar er ískyggileg en skýr. Borgarsjóður var rekinn með 15,6 milljarða halla árið 2022 og skuldir samstæðu jukust um 39 milljarða milli ára. Hlutfall launakostnaðar af samanlögðum útsvars- og Jöfnunarsjóðstekjum nam 89%, og hefur starfsmönnum A-hluta fjölgað um 25% á fimm ára tímabili, langt umfram lýðfræðilega þróun.
Ef þessar staðreyndir voru ekki nægilega mikið áhyggjuefni, þá tilkynnti borgin fyrir helgi að villa hefði fundist í ársreikningi sem leiddi til þess að veltufé frá rekstri reyndist ekki jákvætt, heldur neikvætt sem nam rúmum tveimur milljörðum króna. Í einföldu máli, Reykjavíkurborg er ekki sjálfbær í sínum rekstri og þarf að reiða sig á lánsfé til að standa undir afborgunum lána og fjárfestingum.
Eina breytingin er enn verri fjárhagsstaða
Meirihlutinn kynnti fyrir áramót fremur dapurlegar hagræðingaaðgerðir sem aldrei munu duga til að hreyfa nálina í rekstri borgarinnar. Jafnframt voru kynntar nýjar ráðningarreglur sem miðuðu fyrst og fremst að því að ráða ekki í ónauðsynleg störf. Frá þeim tíma hefur hver ónauðsynlega atvinnuauglýsingin á fætur annarri birst á vegum borgarinnar.
Meirihlutaflokkarnir neita að axla nokkra ábyrgð á fjárhagsvandanum og beina fingrum sífellt á aðra. Borgarstjóri hefur lýst því yfir að borgin fari vel með fé og að engin mistök hafi átt sér stað í rekstrinum. Framsóknarflokkurinn boðaði breytingar í liðnum sveitastjórnarkosningum. Nú er fjórðungur liðinn af kjörtímabilinu og það eina sem hefur breyst er fjárhagsstaðan – og það til hins verra.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks kalla eftir ábyrgum og heiðarlegum viðbrögðum við rekstrarvandanum. Ráðast þarf í hagræðingar, minnka yfirbyggingu, hefja eignasölu og skipulega niðurgreiðslu skulda. Einungis þannig hreyfum við nálina, höfum merkjanleg áhrif og fyrirbyggjum að uppgjör borgarinnar verði árleg rútínurúst.
Hildur Björnsdóttir
Oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík
Comentários