top of page

Raunhæfar aðgerðir í húsnæðismálum

Ríki og sveitarfélög gera ráð fyrir uppbyggingu 35.000 íbúða hérlendis næstu 10 árin. Hlutdeild Reykjavíkurborgar í uppbyggingaráformunum verði 36%, eða sem nemur 2.000 íbúðum árlega fyrstu 5 árin en 1.200 íbúðum árlega síðari fimm árin. Þessi metnaðarfullu markmið eru nauðsynleg, enda margra ára uppsöfnuð húsnæðisþörf í borginni sem er löngu tímabært að bregðast við. En munu áætlanir borgarinnar ganga eftir?


Borgin getur gripið til aðgerða

Á borgarstjórnarfundi síðastliðinn þriðjudag sagði borgarstjóri að Reykjavíkurborg myndi ekki standa uppbyggingarhraða húsnæðis fyrir þrifum – fyrst og fremst myndi hraðinn taka mið af aðgengi verktaka að lánsfé hverju sinni. Varpaði hann þar ábyrgðinni alfarið yfir á lánastofnanir.

 

Fjármögnun húsnæðisuppbyggingar mun sannarlega vera áhrifaþáttur næstu misserin, en ekki má gera lítið úr ábyrgð borgarinnar. Uppbyggingarhraði mun jafnframt vera órjúfanlega samofinn lóðaframboði hverju sinni, sveigjanleika í uppbyggingarskilmálum og afgreiðsluhraða innan stjórnkerfisins. Allt eru þetta þættir sem borgin hefur á sínu forræði – og þættir þar sem töluvert svigrúm er til framfara.

 

Hagkvæmt fyrir suma

Mikil eftirspurn er eftir hagkvæmu húsnæði um land allt. Fáir aðilar fá hins vegar tækifæri til að standa að uppbyggingu hagkvæms húsnæðis, og takmarkaður hópur á rétt til búsetu í slíku húsnæði.

 

Það skaut því skökku við á dögunum þegar stórt verktakafyrirtæki óskaði eftir lóð hjá Reykjavíkurborg til að reisa níu hundruð hagkvæmar íbúðir. Hönnun og undirbúningi íbúðanna væri þegar lokið – eingöngu þyrfti lóðir svo hefja mætti uppbygginguna. Reykjavíkurborg hafnaði beiðninni með þeim rökum að lóðum væri almennt úthlutað í útboðum. Samhliða var fullyrt að nægt lóðaframboð væri í Reykjavík.

 

Vart er hægt að taka undir þá fullyrðingu að nægt sé lóðaframboðið, enda hvergi aðgengilegar upplýsingar um útboð á lóðum um þessar mundir. Jafnframt hefur borgin ítrekað úthlutað lóðum og byggingarheimildum án útboðs á undanliðnum árum. Það virðist hægt að sveigja reglurnar fyrir vildarvini, en ekki stönduga aðila sem sýna vilja og bolmagn til að svara eftirspurn á húsnæðismarkaði – í miðri húsnæðiskrísu.

 

Lóðaframboð, sveigjanleiki og lægri álögur

Húsnæðismálin eru ein stærsta áskorun sem við munum standa frammi fyrir næsta áratuginn. Svo mæta megi uppsafnaðri húsnæðisþörf, og fyrirséðri þörf til framtíðar, verður nauðsynlegt að bregðast við af krafti.


Sjálfstæðisflokkurinn hefur ítrekað bent á spennandi tækfifæri til húsnæðisuppbyggingar á eftirsóttum svæðum í borginni. Mætti þar nefna Örfirisey, Kjalarnes, Staðarhverfi í Grafarvogi og Úlfarsárdal. Við höfum jafnframt nefnt mikilvægi þess að tryggja sveigjanlegri skipulagsskilmála, hraðari málsmeðferð og liprari stjórnsýslu. Ekki síst mætti huga að lægri álögum, sem skipt geta sköpum nú þegar byggingakostnaður fer sífellt hækkandi.


Úrval húsnæðiskosta í lifandi borgarumhverfi

Metnaðarfullum markmiðum í húsnæðismálum verður ekki náð nema til komi raunhæfar aðgerðir – enda húsnæðisþörfin knýjandi. Hér duga ekki fagurgalar og orðin tóm. Ef við viljum að Reykjavík verði eftirsóknarverður búsetukostur til framtíðar, þarf að tryggja úrval húsnæðiskosta í lifandi borgarumhverfi sem hæfir ölllum kynslóðum. Mæta þarf húsnæðisþörfinni með kröftugri framfylgd húsnæðisáætlana samhliða skipulagi nýrra svæða. Tryggja þarf sveigjanlegri skipulagsskilmála, stafrænar lausnir, lipurri stjórnsýslu og lægri álögur fyrir byggingaiðnað í Reykjavík. Einungis þannig náum við raunverulega þeim metnaðarfullu markmiðum sem að er stefnt.
 

 

 

 

 

Comments


bottom of page