top of page

Refurinn og vínberin

Dag nokkurn læddist hungraður refur inn í víngarð til að leita sér ætis. Vínberin voru fullþroskuð og héngu í fögrum, purpuralitum klösum á vínviðargreinum. En þær höfðu verið látnar vaxa uppeftir háu grindverki. Og hvernig sem refurinn teygði sig og stökk náði hann jafnvel ekki til neðstu greinanna. Um síðir gafst hann upp, sneri ólundarlegur til baka og tautaði: „Hvern gæti langað í önnur eins ber og þessi? Það sjá allir að þau eru súr eins og grænar sítrónur.“[1]

 

Óbreytt ástand

Á vordögum gengu borgarbúar til borgarstjórnarkosninga. Á undanliðnum kjörtímabilum hafði borgin orðið undir í samkeppni um fólk og fyrirtæki. Húsnæðisvandinn hafði vaxið, tafatími í umferðinni aukist, þjónusta Strætó versnað og biðlistavandi leikskólanna aukist. Innviðir lágu undir skemmdum sökum viðhaldsskorts og skuldasöfnun borgarinnar virtist hömlulaus. Fyrirtæki flúðu borgina vegna lóðaskorts og ósamkeppnishæfra skatta. Við stjórn voru öfl sem létu sér nægja að tala um hlutina – en höfðu minni áhuga á að framkvæma. Nú þótti kominn tími á breytingar.

 

Um þetta var kosið. Breytingar. Meirihlutinn var felldur enn eina ferðina og Framsóknarflokkurinn, sem boðaði fyrst og fremst breytingar, náði góðum árangri. Það skaut því fremur skökku við þegar Framsókn ákvað að ganga inní hinn fallna meirihluta og viðhalda óbreyttu ástandi, þvert á gefin loforð.

 

Brotin loforð alls staðar

Þeir flokkar sem nú fara með völd í borginni fóru ósparlega með loforðin á vordögum. Þau lofuðu öllum börnum leikskólaplássi frá 12 mánaða aldri strax í haust. Þau sögðu rekstur borgarinnar sterkan og gefa góð fyrirheit fyrir misserin framundan. Þau gáfu borgarbúum tilefni til að horfa vongóðum augum á purpuralituðu vínberin, en létu hjá líða að nefna hve ómögulegt myndi reynast að nálgast þau.

 

Þessu tókst ekki að gera kjósendum grein fyrir í liðinni baráttu. Það var því ákveðinn vendipunktur á haustdögum þegar foreldrar leikskólabarna, sem þegar höfðu fengið loforð um leikskólapláss fyrir börn sín, áttuðu sig á að þau voru höfð að fífli í liðinni kosningabaráttu. Foreldrar flykktust með börn sín í ráðhúsið og mótmæltu sviknum loforðum. Þegar meirihlutaflokkarnir þurftu að skýra hvers vegna purpuralituðu vínberin voru ekki aðgengileg foreldrum líkt og lofað var, reyndu þeir að sannfæra foreldra um að málið byggði allt á misskilningi.

 

Það varð samskonar vendipunktur, eftir áralöng hróp sjálfstæðismanna í eyðimörkinni um rauð flögg í rekstri borgarinnar, þegar útkomuspá fyrir árið 2022 var birt. Í ljós kom fyrirséður rekstrarhalli borgarsjóðs sem nemur 15,3 milljörðum árið 2022. Það er sexfaldur halli miðað við fyrri áætlanir. Í aðdraganda kosninga sagði borgarstjóri rekstur borgarinnar traustan – en þegar keisarinn stóð nakinn var málið auðvitað allt einhverjum öðrum að kenna. Ríkinu, stríðsrekstri í Evrópu, málaflokki fatlaðs fólks, móttöku flóttafólks og áfram mátti telja.

 

Að teygja sig í vínberin

Vonandi urðu stærstu vendipunktar liðins árs, hvað varðar borgarmálin, þeir að kjósendur hugsa sig nú tvisvar um áður en lofað er fögrum purpuralituðum vínberjaklösum. Vonandi hugsa kjósendur sig nú tvisvar um áður en innihaldslausum lýsingarorðum um ábyrgan rekstur borgarsjóðs er fleygt fram. Vonandi hefur orðið sá vendipunktur að fólk geri kröfur um skýringar á því – hvernig stjórnmálamenn hyggjast teygja sig upp í vínviðargreinarnar sem vaxa á háa grindverkinu.

 

Hildur Björnsdóttir

Oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík


[1] Dæmisögur Esóps, Refurinn og vínberin, þýðing Þorsteins frá Hamri.
Comentarios


bottom of page