Kannski er digurbarkalegt að kalla smáborgina Reykjavík heimsborg. Hún er í það minnsta ekki stórborg. En í smáborgarlífinu slær heimsborgarhjarta. Tækifærin til framfara óþrjótandi.
Reykjavík stendur á spennandi umrótstímum sem kalla munu á breytingar. Tækniframfarir, fólksfjölgun og loftslagsbreytingar munu setja mark sitt á viðfangsefni framtíðar. Á vordögum gefst borgarbúum kostur á að kjósa sér nýja borgarstjórn. Við þau tímamót þarf Sjálfstæðisflokkur að byggja á framtíðarsýn sem sameinar fólk á öllum aldri - á öllum sviðum mannlífsins. Framtíðarsýn sem varðveitir sérkenni Reykjavíkur en gætir þess að borgin þróist í takt við aðrar vestrænar borgir – og verði ekki undir í samkeppni um ungt fólk og atgervi. Framtíðarsýn sem tryggir fólki og fyrirtækjum farsælan farveg til vaxtar og framfara.
Ég gef kost á mér til að leiða lista Sjálfstæðisflokks í komandi kosningum. Það geri ég af brennandi eldmóð fyrir sjálfstæðisstefnunni og trú minni á höfuðborg sem býður lifandi borgarumhverfi, jöfn tækifæri og fjölbreytta kosti í frjálsu samfélagi – þar sem sameiginleg framtíð er viðfangsefnið.
Grunnskólar sem virka
Ég trúi því að sérhvert barn hafi eitthvað mikilvægt fram að færa - að eitt verðugasta verkefni skólakerfisins verði ávallt að tryggja öllum börnum jöfn tækifæri til að leita hæfileika sinna – og efla með þeim sjálfstraust til að skapa úr hæfileikum sínum tækifæri og verðmæti. Það byggist á trú minni á einstaklinginn og samfélag þar sem enginn er skilinn eftir.
Ég tel rétt að borgin setji sér markmið um framúrskarandi grunnskóla. Ég vil tryggja fjölbreytt námsmat og styðja betur við sjálfstætt starfandi skóla. Jafnframt vil ég að höfuðborgin vinni að því markmiði, að koma íslensku skólakerfi í röð 10 fremstu innan OECD fyrir árið 2040. Borgin taki forystu og leiði stórstíg framfaraskref í menntamálum – ábyrgð höfuðborgarinnar er mikil og hana þarf að axla af alvöru og metnaði.
Leikskólaþjónusta sem virkar
Biðlistavandi leikskólabarna er flestum kunnur og hefur reynst fjölskyldufólki áralöng flækja í daglegu amstri. Yfir 16 ára tímabil hefur Samfylking lofað öllum börnum leikskólavist við 12-18 mánaða aldur. Illa gengur að stytta biðlista og nú, 16 árum síðar, er meðalaldur barna við inngöngu í borgarrekna leikskóla 29 mánuðir.
Ég vil setja fjölskyldumálin í forgang. Skapa borg sem býður trausta og áreiðanlega daggæslu eða leikskólavist strax í kjölfar fæðingarorlofs. Það er mikilvægt jafnréttismál.
Samgöngur sem virka
Samgönguvandi borgarinnar hefur farið vaxandi og leitt af sér víðtæka sóun fjármuna og lífsgæða. Leysa þarf vandann með fjárfestingu í fjölbreyttum samgöngukostum. Ég vil vinna áfram að samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins sem byggist á því að farþegum almenningssamgangna fjölgi, en horfist í augu við að áfram muni stærstur meirihluti fólks fara leiðar sinnar á bíl. Sú hugmynd að velja þurfi einn fararmáta til að notast við öllum stundum er hvorki raunhæf né eftirsóknarverð. Framtíðin felur í sér valfrelsi og sveigjanleika.
Samhliða sáttmálanum vil ég vinna að uppbyggingu Sundabrautar í einkaframkvæmd og innleiðingu hjólreiðaáætlunar. Ég tel mikilvægt að Sjálfstæðismenn leiði vinnu við uppbyggingu fjölbreyttra samgöngukosta svo áhersla verði lögð á hagkvæmni og skilvirkni við alla útfærslu.
Hverfi sem virka
Ég vil að borgin verði endurskipulögð á forsendum hverfanna – á grundvelli sérstöðu þeirra og styrkleika. Öll borgarhverfi verði þróuð með það fyrir augum að unnt verði að nálgast helstu verslun og þjónustu í 15 mínútna göngufæri. Víða um borg standa lúnir hverfiskjarna sem margir mega muna fífil sinn fegurri. Ég vil glæða kjarnana fyrra lífi með því að virkja einkaframtak og bæta skipulag. Þannig má skapa aukið mannlíf innan hverfa, efla nærþjónustu og einfalda daglegt líf.
Forsendur 15 mínútna hverfa eru þétt og blönduð byggð hvar íbúðarhúsnæði, vinnustaðir og þjónusta eru í nálægð hvert við annað. Fjölgun vinnustaða í austurhluta borgarinnar mun ýta undir þessa þróun og hafa jákvæð áhrif á samgöngur í borginni.
Húsnæðismarkaður sem virkar
Það er húsnæðisskortur í Reykjavík. Skorturinn hefur verið viðvarandi og endurspeglast í mikilli verðhækkun íbúða. Áætluð uppbyggingarþörf er 30.000 íbúðir á landsvísu næsta áratuginn. Þörfin er talin mest á höfuðborgarsvæðinu en þar er jafnframt mörg þúsund íbúða uppsöfnuð þörf.
Ég tel mikilvægt að mæta húsnæðisþörfinni – bæði þeirri uppsöfnuðu og til framtíðar. Ég vil hefja skipulag íbúðauppbyggingar í Örfirisey og að Keldum, samhliða aukinni þéttingu innan hverfa sem hafa til þess svigrúm.
Velferð sem virkar
Ég vil tryggja velferðarþjónustu sem eykur lífsgæði, stuðlar að virkni og tryggir öllum borgarbúum möguleikann á að lifa með reisn. Með stuðningi við einkaframtakið má fjölga valkostum og mæta margbreytilegum þörfum. Jafnframt vil ég stula að heilsueflandi borgarumhverfi og verndun grænna svæða, svo tryggja megi öllum jöfn tækifæri og fjölbreyttar leiðir til að ástunda heilbrigðan lífstíl.
Ég vil tryggja samfellu í geðheilbrigðisþjónustu við börn. Biðlistar eru langir og einstaklingar falla gjarnan milli skips og bryggju innan kerfisins. Auknar forvarnir og auðveldur aðgangur að sálfræðiþjónustu strax í grunnskóla gætu skipt sköpum.
Fjármál sem virka
Ég tel mikilvægt að borgarkerfið undirgangist tiltekt. Stjórnkerfi borgarinnar hefur orðið að bákni - minnka þarf yfirbygginguna og hefja skipulega niðurgreiðslu skulda. Jafnframt þarf að selja fyrirtæki í samkeppnisrekstri. Ég vil treysta fjárhaginn svo efla megi þjónustuna og skapa svigrúm til lækkunar skatta á fólk og fyrirtæki. Við verðum að sýna ábyrgð og ráðdeild þegar sýslað er með fjármuni borgarbúa.
Kerfi sem virkar
Ég vil tryggja betri jarðveg fyrir framfarir og verðmætasköpun í Reykjavík. Það er ólíðandi þegar opinber kerfi hafa hamlandi áhrif á frumkvæði og framtak. Ég vil einfalda stjórnsýsluna, stytta afgreiðslufresti, fækka skrefum vegna leyfisveitinga og tryggja rafræn umsóknarferli. Ég vil jafnframt að fasteignaskattar á atvinnuhúsnæði verði samkeppnishæfir og aðgengi að atvinnulóðum betra. Frumkvæði og framtak verða ávallt að eiga vísan farveg í Reykjavík.
Reykjavík sem virkar
Með sjálfstæðismönnum vil ég skapa borg sem virkar fyrir fólk og fyrirtæki. Höfuðborg, þar sem fólk getur leitað hamingjunnar á eigin forsendum. Ég vil borgarumhverfi sem setur fjölskyldur í forgang - skóla sem mæta fjölbreyttum þörfum og leikskóla sem tryggja inngöngu strax í kjölfar fæðingarorlofs. Ég vil velferðarþjónustu sem tryggir rétt sérhvers einstaklings til að lifa með reisn – og borgarumhverfi sem laðar að sér hæfileikafólk með úrvali atvinnutækifæra, spennandi búsetukostum og fjölbreyttum samgöngukostum. Ég vil borg sem ryður veginn fyrir þá sem vilja sækja fram og styður við hugmyndaauðgi og verðmætasköpun. Höfuðborg sem byggist á frjálsum valkostum, jöfnum tækifærum, frjálsu framtaki og hagkvæmum rekstri. Ég vil lifandi smáborg með heimsborgarhjarta - mannvæna og blómstrandi — Reykjavík sem virkar.
Hildur Björnsdóttir
Borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks
Comments