Reykjavík hefur alla burði til að verða borg tækifæranna. Höfuðborgin stendur á spennandi umrótstímum sem kalla munu á breytingar. Tækniframfarir, fólksfjölgun og loftslagsbreytingar munu setja mark sitt á viðfangsefni framtíðar. Varðveita þarf sérkenni Reykjavíkur en gæta þess að borgin þróist í takt við aðrar vestrænar borgir – og verði ekki undir í samkeppni um ungt fólk og atgervi.
Undir stjórn núverandi meirihluta hefur reyndin þó verið sú, að borgin hefur orðið undir í samkeppni um fólk og fyrirtæki. Undanliðin kjörtímabil hefur húsnæðisvandinn vaxið, tafatími í umferðinni aukist, þjónusta Strætó versnað og biðlistavandi leikskólanna aukist. Innviðir liggja undir skemmdum sökum viðhaldsskorts og skuldasöfnun borgarinnar virðist hömlulaus. Fyrirtæki flýja borgina vegna lóðaskorts og ósamkeppnishæfra skatta. Við stjórn hafa verið öfl sem láta sér nægja að tala um hlutina – en hafa minni áhuga á að framkvæma. Nú er kominn tími á breytingar.
Barnvæn borg
Sjálfstæðisflokkurinn vill tryggja barnvæna borg og öfluga þjónustu við fjölskyldur. Reynslan hefur sýnt að fjölskyldufólk flýr í nágrannasveitarfélög þar sem þjónustan reynist betri. Við ætlum að tryggja öllum börnum leikskólapláss frá 12 mánaða aldri og bjóða svokallaðan foreldrastyrk fyrir foreldra sem kjósa að dvelja heima með börnin sín eftir fæðingarorlof, til tveggja ára aldurs. Við ætlum að forgangsraða uppbyggingu íþróttamannvirkja í þágu barna og ungmenna og hækka frístundakortið í 70 þúsund krónur árlega. Við viljum að höfuðborgin verði framúrskarandi valkostur fyrir fjölskyldur.
Kröftug húsnæðisuppbygging
Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að ráðast í kröftuga húsnæðisuppbyggingu með skipulagi nýrra hverfa samhliða þéttingu byggðar innan hverfa sem hafa til þess svigrúm. Jafnframt ætlar flokkurinn að fjölga 15 mínútna hverfum og efla nærþjónustu hverfanna. Við leggjum áherslu á öflugri verslunarkjarnainnan borgarhverfa og hyggjumst setja á laggirnar stofnstyrki til þeirra sem vilja hefja starfsemi í auðum verslunarrýmum innan kjarnanna.
Fjölbreyttar og greiðar samgöngur
Jafnframt leggjum við ríka áherslu greiðar og fjölbreyttar samgöngur. Við ætlum að hefja uppbyggingu Sundabrautar á næsta kjörtímabili, innleiða hjólreiðaáætlun af krafti, fjölga heitum stígum í borginni, tryggja snjallar ljósastýringar um alla borg og fara í öfluga uppbyggingu almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu. Frjálsir valkostir í samgöngum er leiðarljósið.
Öflug grunnþjónusta og traustur fjárhagur
Flokkurinn vill enn fremur að grunnþjónusta verði efld. Sorphirða verði öflugri og betur verði staðið að snjóruðningi að vetri og götusópun að vori. Við skiljum jafnframt að svo bjóða megi framúrskarandi þjónustu þarf fjárhagur borgarinnar að vera traustur. Við ætlum að minnka yfirbyggingu, einfalda stjórnkerfið og hagræða í borgarkerfinu.
Hamingja á þínum forsendum
Sjálfstæðisflokkurinn vill skapa borg sem virkar fyrir fólk og fyrirtæki. Höfuðborg, þar sem fólk getur leitað hamingjunnar á eigin forsendum. Við viljum borgarumhverfi sem setur fjölskyldur í forgang og velferðarþjónustu sem tryggir rétt sérhvers einstaklings til að lifa með reisn. Við viljum skapa borgarumhverfi sem laðar að sér hæfileikafólk með úrvali atvinnutækifæra, spennandi búsetukostum, iðandi menningarlífi og fjölbreyttum samgöngukostum. Við viljum borg sem ryður veginn fyrir þá sem vilja sækja fram og styður við hugmyndaauðgi og verðmætasköpun. Höfuðborg sem byggist á frjálsum valkostum, jöfnum tækifærum, frjálsu framtaki og hagkvæmum rekstri. Við viljum Reykjavík sem virkar.
Comentarios