top of page

Sókn og framfarir í Reykjavík

Ljóst er að yfirstandandi heimsfaraldur mun hafa víðtækar efnahagslegar afleiðingar. Ríkisstjórn Íslands hefur gripið til umfangsmiklla aðgerða svo hefta megi útbreiðslu veirunnar, standa vörð um afkomu heimilanna og undirbúa kröftuga sókn fyrir íslenskt atvinnulíf. Margir hafa beðið aðgerða frá Reykjavíkurborg sem tryggt gætu vernd og viðspyrnu fyrir fólk og fyrirtæki.


Í marsmánuði kynnti Reykjavíkurborg fyrstu aðgerðir vegna COVID-19. Aðgerðirnar voru hófstilltar og raunhæfar og um þær skapaðist sæmileg sátt. Frá þeim tíma hafa sviðsmyndir breyst – framundan er dýpri efnahagslægð en nokkurn gat grunað. Hafi einhver talið aðgerðirnar máttlausar í upphafi, má sannarlega fullyrða nú, að þær séu máttvana innlegg í alvarlega stöðu borgarinnar. En hvers vegna gerði borgin ekki meira?


Öðru fremur sterkur fjárhagur?

Árið 2017 höfðu tekjur borgarinnar aukist um 30 milljarða árlega frá upphafi kjörtímabils. Samhliða jókst skuldsetning um 30 milljarða. Tekjugóðærið var ekki nýtt til skuldaniðurgreiðslu. Borgarstjóri bjó ekki í haginn fyrir mögru árin.


“Í stað þess að skapa svig­rúm til fjár­fest­inga í fram­tíð­inni ætlar borg­ar­stjór­inn að fjár­festa eins og aldrei fyrr á toppi hag­sveifl­unnar og skera svo harka­lega niður eftir því sem um hægist og þörf fyrir slíkar fjár­fest­ingar eykst”. Þessi réttmætu ummæli lét borgarfulltrúi Pawel Bartoszek falla árið 2018, stuttu áður en hann gekk til meirihlutasamstarfs við borgarstjóra.


Á dögunum fullyrti borgarstjóri að ársreikningur Reykjavíkurborgar 2019 sýndi öðru fremur sterkan fjárhag borgarinnar eftir síðasta ár. Borgarstjóri sparar ekki stóru orðin þegar fjárhagur borgarinnar er annars vegar. Það er gömul saga og ný.


Ársreikningurinn ber hins vegar fjárhag borgarinnar ekki fagurt vitni. Þrátt fyrir tekjuaukningu síðasta árs jókst skuldsetning borgarinnar um 21 milljarð. Launakostnaður hækkaði samhliða fjölgun stöðugilda og rekstrarkostnaður jókst um 9%. Báknið stækkar í tekjugóðæri og tækifæri til skuldaniðurgreiðslu voru vannýtt. Nú hefur lukkan snúist skyndilega og svigrúm til aðgerða lítið.


Baggi á borginni?

Nýlega birti Reykjavíkurborg niðurstöður ábatagreiningar vegna ferðaþjónustu í Reykjavík. Komst borgin að þeirri niðurstöðu að kostnaður Reykjavíkur af ferðamönnum nemi 8,3 milljörðum króna árlega umfram tekjur. Blaut tuska í andlit atvinnugreinar sem skilar meiri gjaldeyristekjum en sjávarútvegurinn og stóriðjan samanlagt. Þúsundir starfsmanna ferðaþjónustu sitja undir þeim þunga krossi, að vera álitnar baggi á borginni.


Að venju er auðvelt að hrekja tölfræðiæfingar borgarstjóra. Árið 2015 greindi Deloitte opinberar tekjur og gjöld vegna ferðamanna. Varlega áætlaðar niðurstöður þess árs sýndu 11 milljarða nettótekjur sveitarfélaga af ferðamönnum. Frá þeim tíma hafa tekjurnar aukist jafnt og þétt.


Borgarstjóri er vissulega í vanda með eigið tölfræðiævintýri. Fullyrðingar hans gefa til kynna, að nú þegar ferðaþjónustan liggur niðri, ætti hagur borgarsjóðs að hafa vænkast sem samsvarar 8,3 milljörðum. Það kæmi sér sannarlega vel - nú á þessum viðsjárverðu tímum – ef rétt reyndist.


Ráðumst í raunhæfar aðgerðir

Langt er liðið frá fyrstu aðgerðum borgarinnar. Frá þeim tíma hafa sviðsmyndir breyst og efnahagslægðin dýpkað. Reykjavíkurborg þarf að stíga inní viðkvæmt efnahagsástand með ábyrgum og raunhæfum hætti.


Við þurfum að létta álögum af fólki og fyrirtækjum. Undirrituð telur rétt að hverfa frá arðgreiðsluáformum Orkuveitunnar og lækka orkureikninga heimilanna. Jafnframt að fasteignaskattar á atvinnuhúsnæði verði lækkaðir strax. Ráðist verði í sölu dótturfyrirtækja sem standa í samkeppnisrekstri, Gagnaveitunnar og Malbikunarstöðvarinnar Höfða. Viðræður verði hafnar við stærstu vinnustaði borgarinnar um sveigjanlegri vinnutíma, svo létta megi umferðarálagi, líkt og reynsla undanliðinna missera hefur sýnt.


Við þurfum að tryggja afkomu heimilanna með atvinnuskapandi aðgerðum. Undirrituð telur rétt að bjóða út rekstur nýrra leikskóladeilda og gefa einkaframtakinu tækifæri til samfélagslegrar verðmætasköpunar. Tryggja þarf áframhaldandi húsnæðisuppbyggingu með auknu svigrúmi á byggingamarkaði og áfangaskiptum greiðslum af byggingarétti. Við þurfum að styðja við aukna aðsókn á göngu- og hjólastígum borgarinnar með frekari uppbyggingu og upphitun stíga. Við þurfum að ganga til liðs við einkaframtakið um heilsueflingu fyrir eldri borgara og grunnskólabörn.


Við horfum fram á djúpa efnahagslægð vegna áhrifa COVID-19. Fyrirtæki róa lífróður, ferðaþjónustan er í dauðatygjunum og afkomu heimilanna er ógnað. Viðfangsefnin framundan eru flókin og brýn og margir reiða sig á fumlaus viðbrögð stjórnmálanna. Við þurfum að gera meira og við þurfum að gera betur. Við þurfum að tryggja fólki og fyrirtækjum örugga afkomu og öfluga viðspyrnu – standa vörð um frjálst og réttlátt samfélag - og tryggja frjóan jarðveg fyrir sókn og framfarir. Þannig vinnum við samfélaginu gagn.

Comments


bottom of page