top of page

Sýndarsamráð í Reykjavík


Fyrirliggjandi eru breytingar á skólahaldi í norðanverðum Grafarvogi. Skólahald í Staðahverfi verður afnumið og skólar sem áður voru fjórar aðskildar skólaeiningar verða sameinaðir. Börnum Staðahverfis verður nú gert að sækja skóla utan hverfis. Meirihluti borgarstjórnar keyrir málið áfram í óþökk íbúa án teljandi samráðs við fjölskyldur. Eðlilega gætir mikillar óánægju í hverfinu.


Það er grunnforsenda við búsetuval fjölskyldufólks að í nærliggjandi umhverfi megi finna grunnskóla. Byggð byggist gjarnan upp umhverfis skólasamfélag. Í gildandi deiliskipulagi fyrir Staðarhverfi er gert ráð fyrir 120 barna grunnskóla. Börn með skráð lögheimili í hverfinu eru nú um 150 talsins. Staðahverfi þótti því áskjósanlegur búsetukostur fyrir fjölskyldufólk enda gefur skipulag hverfisins réttmætar væntingar til að geta treyst á grunnskólaþjónustu innan hverfis.


Það er meginregla í íslenskum rétti að ákvarðanir sem varða börn skuli ávallt taka mið af bestu hagsmunum þeirra. Við slíka ákvarðanatöku skuli jafnframt taka tillit til sjónarmiða barnanna og forsjáraðila þeirra. Fyrirhuguð breyting á skólahaldi í Staðahverfi tekur ekki mið af bestu hagsmunum barnanna, er keyrð áfram án samtals við íbúa - og er enn eitt dæmið um sýndarsamráð í Reykjavík.


Breytingarnar eru mikið högg fyrir Staðahverfið allt. Foreldrum er mætt af skilningsleysi og meðal uppgefinna ástæðna er hagræðing. Það eru fjölmörg tækifæri til hagræðingar í borgarkerfinu. Það er þó aldrei forsvaranlegt að skerða lögbundna grunnþjónustu þegar hagræðingartækifærin eru áþreifanlegri innan stjórnkerfisins. Íbúar Staðahverfis hafa skorað á meirihluta borgarstjórnar að hverfa frá áfromunum og styðja fremur hið rótgróna skólahald í Staðahverfi. Hér er tekið undir þá áskorun.


Hildur Björnsdóttir Höfundur er borgarfulltrúi fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Reykjavík
Σχόλια


bottom of page