top of page

Sjálfsköpuð súr epli

Þórdísi Lóu Þórhallsdóttur, formanni borgarráðs, svelgdist á sveitakaffinu þegar undirrituð vakti máls á alvarlegri fjárhagsstöðu Reykjavíkurborgar í Vikulokunum á laugardag. Í aðsendri grein óð hún glóruleysið upp að hnjám og fullyrti fjárhag borgarinnar vera hvoru tveggja, traustan og góðan. Þórdís Lóa hefur gert garðinn frægan fyrir það helst, að falla á sverðið fyrir borgarstjóra.

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, sagði nýverið ársreikning Reykjavíkurborgar sýna öðru fremur sterkan fjárhag sveitafélagsins. Bakraddir meirihlutans tóku gagnrýnilaust undir og opinberuðu um leið undirlægjuhátt og meðvirkni.


Það er engum blöðum um það að fletta – ársreikningur Reykjavíkurborgar ber fjárhagnum ekki fagurt vitni. Þrátt fyrir tekjuaukningu síðasta árs jókst skuldsetning borgarinnar um 21 milljarð. Launakostnaður hækkaði samhliða fjölgun stöðugilda og rekstrarkostnaður jókst um 9%. Báknið stækkar í tekjugóðæri og tækifæri til skuldaniðurgreiðslu voru vannýtt. Nú hefur lukkan snúist skyndilega og svigrúm til aðgerða lítið.


Neyðarkall borgarinnar

Heimsfaraldur COVID19 skapar krefjandi rekstrarumhverfi fyrir marga. Þar er höfuðborgin engin undantekning. Af þeim sökum óskaði Reykjavíkurborg, ásamt öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu, eftir 50 milljarða óendurkræfum fjárhagsstuðningi frá ríkinu - og öðru eins að láni frá Seðlabanka Íslands á hagkvæmustu kjörum með 5-7 afborgunarlausum árum. Öðrum kosti gæti höfuðborgin ekki staðið undir þjónustuskyldum sínum við íbúana og heimilin - rekstur borgarsjóðs yrði algjörlega ósjálfbær til margra ára.


Rekstur Reykjavíkurborgar var reyndar ósjálfbær löngu áður en áhrifa COVID-19 fór að gæta. Ef ekki væri fyrir sölu byggingaréttar gæti borgin ekki sinnt þjónustuskyldum sínum við íbúana. Borgarstjóri reiðir sig á einskiptistekjur svo hanga megi réttu megin við núllið.


Með neyðarkalli borgarinnar fylgdu niðurstöður starfshóps, sem skipaður var af borgarstjóra, hvar sátu margir helstu stjórnendur Reykjavíkurborgar. Þar sagði meðal annars að viðbótarfjármögnunarþörf borgarsjóðs umfram forsendur fjárhagsáætlunar fyrir 2020-21 myndi nema 39 milljörðum króna. Þá væru ótaldir 36,5 milljarðar sem myndu falla til næstu árin. Jafnframt sagði í niðurstöðunum: „Vandinn snýst hins vegar ekki aðeins um skammtíma fjármögnunarvanda heldur stefnir í algerlega ósjálfbæran rekstur til margra ára. Þessa ósjálfbærni er ekki hægt að leysa með hækkun leyfilegrar skattlagningar eða þjónustugjalda eða með stórfelldum niðurskurði í útgjöldum borgarinnar. Hefðbundnar aðferðir eru ekki í boði.”


Skógarbóndinn, Þórdís Lóa, virtist alls ómeðvituð um neyðarkall borgarinnar til ríkissjóðs – jafnvel þó hún hefði á vordögum sett erindið sjálf á dagskrá borgarráðs. Sá kann ekki að segja af súru sem aldrei sýpur nema sætt. Meirihlutaflokkarnir hafa meiri áhuga á eigin innantóma loforðahjómi, en úrlausn flókinna viðfangsefna.


Hirðuleysi gagnvart fjármálum

Neyðarkall borgarinnar sýndi glöggt alvarlega stöðu borgarsjóðs – mun alvarlegri en stöðu annarra sveitarfélaga. Nú bítur meirihlutinn í það sjálfskapaða súra epli, að hafa haldið fjálglega um rekstur borgarsjóðs undanliðin kjörtímabil. Hirðuleysið er algert - borgin er varnarlaus nú þegar skórinn kreppir – og ábyrgðin er meirihlutans.


Samhliða neyðarkallinu kynnir meirihlutinn hið svokallaða “Græna plan” sem kallar á útgjöld sem nema 100 milljörðum hið minnsta, næstu 5-10 árin. Hvernig áformin samræmast ósjálfbærum rekstri Reykjavíkurborgar er fullkomlega á huldu. Minnir helst á nýlega ábatagreiningu borgarinnar á ferðaþjónustu, hvar borgin kallaði á ríkisaðstoð og fullyrti ferðaþjónustuna kosta sveitarfélagið 8,3 milljarða árlega. Hagur borgarinnar hefur þá væntanlega vænkast verulega, nú þegar ferðaþjónustan berst í bökkum? Hér stendur ekki steinn yfir steini.


Þegar allt kemur til alls er einni spurningu ósvarað. Er Þórdís Lóa í fullkominni flónsku gagnvart fjárhag Reykjavíkurborgar? Eða fer hún vísvitandi með ósannindi? Ekki veit ég, hvort mér þykir verra.

Comentarios


bottom of page