top of page

Stýrihópar eða lausnir

„Skipulag á snjómokstri í Reykjavík er gott í grunninn og hefur verið undanfarin ár“. Svohljóðandi var innlegg borgarstjóra í umræðu um vetrarþjónustu í borginni liðinn þriðjudag. Virtist borgarstjóri í fullkomnu snertingarleysi við þær áskoranir sem hafa mætt borgarbúum í vetrarfærð liðinna vikna.


Vetrarþjónusta er öllum mikilvæg

Það er óhætt að segja að líf og starfsemi í borginni hafi orðið fyrir töluverðu raski undanliðnar vikur vegna snjóþyngsla. Við þessar aðstæður hefur getuleysi borgarinnar við sjálfsagða vetrarþjónustu birst glögglega. Starfsfólk hefur sannarlega staðið sig með ágætum, en vanbúnaðurinn verið augljós.


Framúrskarandi vetrarþjónusta er sjálfsögð grunnþjónusta. Það gildir einu hvaða fararmáta fólk velur sér, öll þurfa á öflugri snjóhreinsun að halda. Vönduð og yfirgripsmikil vetrarþjónusta er jafnframt mikilvægt aðgengismál. Þá eru ótalin þau verðmæti sem samfélagið verður af, vegna alls þess rasks sem atvinnulíf verður fyrir við aðstæður sem þessar.


Að yfirfara samninga

Fulltrúar meirihlutans hafa í tilsvörum sagt mikilvægt að rýna samninga við verktaka og kanna hvernig þeim megi breyta svo efla megi þjónustuna. Af skoðun samninganna hefur komið í ljós að Reykjavíkurborg hefur aðeins gert samninga við þrjá verktaka um snjóhreinsun og hálkuvarnir gatna og gönguleiða í borginni. Á grundvelli þessara samninga hafa aðeins 22 snjóruðningstæki verið að störfum í Reykjavík að undanförnu. Til samanburðar hafa tækin verið 20 í Hafnarfirði, 20 í Kópavogi og 10 í Garðabæ. Ef höfðuborgin stæði sig hlutfallslega jafnvel og nágrannasveitarfélög hefðu snjóruðningstæki að störfum verið tæplega 80 talsins.


Borgarstjóri og formaður borgarráðs hafa farið mikinn á síðustu vikum - sagt borgarbúum að anda léttar því þeir væru að yfirfara samninga við verktaka. Það vakti því áhuga undirritaðrar á fundi borgarstjórnar síðastliðinn þriðjudag, þegar í ljós kom að hvorki borgarstjóri, né formaður borgarráðs, höfðu kynnt sér téða samninga. Það er ekki flókið verk, en undirrituð las yfir samningana og dró saman helstu efnisatriði þeirra yfir morgunkaffinu í vikunni.


Að tala eða framkvæma

Það er eitt að tala og annað að framkvæma. Fulltrúar meirihlutans leysa sérhvert vandamál með stofnun stýrihópa, starfshópa og spretthópa. Allar tiltækar leiðir dregnar fram til að tefja og þvæla mál. Segjast önnum kafnir við yfirlestur samninga sem aldrei hafa verið lesnir.

Stýrihópar hafa almennt ekki flýtt fyrir afgreiðslu mála. Endurbætur á vetrarþjónustu borgarinnar eru aðkallandi vandamál sem þola enga bið. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks telja mikilvægt að stytta boðleiðir frá vandamálum að lausnum innan borgarkerfisins. Þegar vanbúnaður borgarinnar í erfiðri vetrarfærð blasir við, þarf að taka ákvarðanir hratt og örugglega. Það er eðlilegt að gera á vettvangi borgarráðs og á skrifstofu borgarstjóra. Ekki innan stýrihópa með engar valdheimildir.


Stýrihópar kunna að vera góðra gjalda verðir við langtíma stefnumótun, en þeir geta ekki falið í sér lausn aðkallandi vanda. Lausnin liggur í fleiri samningum, fleiri vélum, betra skipulagi og öflugri þjónustu.
Comments


bottom of page