Framundan er prófkjör hjá Sjálfstæðisflokknum í Reykjavík. Við það tilefni gefst sjálfstæðismönnum tækifæri til að velja sigurstranglegan framboðslista fyrir komandi borgarstjórnarkosningar. Ég óska eftir skýru umboði frá flokksmönnum til að leiða listann til sigurs í vor.
Ákall á breytingar
Það má skynja áþreifanlegt ákall á breytingar í borginni. Reykjavík hefur verið stýrt með vinstri höndinni um tæplega þrátíu ára skeið, með örstuttum hléum. Það er löngu tímabært binda enda á áralanga eyðimerkurgöngu Sjálfstæðisflokksins í borginni.
Fjármál borgarinnar eru óreiðukennd. Skuldir hækka kjörtímabil eftir kjörtímabil. Starfsmönnum borgarinnar fjölgaði um 20% á kjörtímabilinu þrátt fyrir viðvarandi manneklu á leikskólum og undirmönnun við snjómokstur og sorphirðu. Innviðir borgarinnar liggja víða undir skemmdum og standast ekki nútímakröfur - ekki síst skólahúsnæði, leikskólahúsnæði og íþróttamannvirki. Útsvarsgreiðslur borgarbúa virðast fyrst og fremst fóðra kerfi sem í auknum mæli snúast um kerfin sjálf. Það hefur gleymst að fólkið á ekki að þjóna kerfinu – heldur kerfið fólkinu.
Nú verður að taka í handbremsuna og ná fram nauðsynlegum breytingum í borginni. Við þurfum að ná utan um fjármál borgarinnar. Minnka yfirbyggingu, selja eignir utan kjarnaþjónustu og lækka skuldir. Útsvari borgarbúa þarf að beina í réttan farveg - í að byggja upp nauðsynlega innviði og sinna lögbundinni grunnþjónustu. Binda þarf enda á óráðsíuna í Reykjavík.
Við þurfum Reykjavík sem virkar.
Við þurfum að binda enda á eyðimerkurgöngu Sjálfstæðisflokksins í borginni. Við þurfum að svara ákalli borgarbúa eftir breytingum. Við þurfum að skapa hér frjálsa og réttláta höfuðborg sem byggir á jöfnum tækifærum, takmörkuðum opinberum afskiptum og sanngjörnum álögum - og við þurfum að tala einum rómi um þá mikilvægu staðreynd að ef fólk vill breytingar í þessari borg, er aðeins eitt hreyfiafl sem skynsamlegt verður að kjósa – og það er Sjálfstæðisflokkurinn.
Staðan í borgarpólitíkinni er um margt áhugaverð, og Sjálfstæðisflokkurinn gæti verið í lykilstöðu í vor. En stjórnmál eru ekki einleikur. Við þurfum að velja okkur leiðtoga sem ekki aðeins getur átt í fullu tré við sitjandi borgarstjóra, heldur getur einnig leitt flokkinn til samstarfs við aðra flokka í borgarstjórn.
Framundan eru krefjandi en skemmtilegir tímar – í mikilvægum kosningum. Ég óska eftir ykkar stuðningi og skýru umboði til að leiða öflugan og samstilltan hóp Sjálfstæðismanna til sigurs í borgarstjórnarkosningunum í vor.

Comments