top of page

Tölum minna, framkvæmum meira

Reykjavík er frábær borg. Hér er iðandi menningarlíf, útivistarsvæði í heimsklassa og óspjölluð náttúra innan seilingar. Reykjavík er einstakur áfangastaður fyrir ferðamenn, en fyrir okkur sem hér búum er því miður víða pottur brotinn.


Grunnþjónustan í Reykjavík virkar einfaldlega ekki sem skyldi.


Í Reykjavík hefur sami meirihluti – með smávægilegum blæbrigðamun – verið við völd í 25 ár af síðustu 28. Sitjandi borgarstjóri hefur verið í áhrifastöðum í borgarstjórn í nær tvo áratugi. Borgin ber þess merki að kominn er tími til breytinga í Ráðhúsi Reykjavíkur.


Samfylkingin hefur á fjögurra ára fresti lofað að útrýma biðlistum eftir leikskólaplássum. Efndir eru nákvæmlega engar. Nú síðast hefur borgarstjóri orðið uppvís að því að lofa leikskólabörnum plássum á leikskólum sem ekki eru til. Þar áður setti hann á laggirnar svokallaðar “ungbarnadeildir”, þar sem færri en tíunda hvert barn var í raun réttri ungabarn.


Borgarstjóra hefur sömuleiðis verið tíðrætt um nauðsyn þess að ýta Borgarlínu úr vör, en hefur á sama tíma skert þjónustu Strætó til að fylla upp í tvö hundruð milljóna rekstrargat. Áætlað er að Borgarlína kosti að minnsta kosti 250 sinnum meira en sem nemur rekstrargati Strætó. Borgarstjóri telur sig engu að síður geta gert lítið úr sjónarmiðum þeirra sem styðja bættar almenningssamgöngur heils hugar, en vilja tryggja fjármögnun verkefnisins áður en haldið er af stað.


Hvernig ætlar borgarstjóri annars að reka tugmilljarða samgöngukerfi, ef hann á ekki tvö hundruð milljónir aflögu til að tryggja óskerta þjónustu gamla góða Strætó?


Sitjandi meirihluta hefur verið tíðrætt um heilbrigðan fjárhag Reykjavíkurborgar. Nýbirt uppgjör ber merki um hið gagnstæða. Skuldir hafa hækkað um þriðjung á kjörtímabilinu. Borgarsjóður er í raun ekki sjálfbær – eins og nýbirt uppgjör borgarinnar ber vitni um - og þarf að reiða sig á arðgreiðslur frá Orkuveitunni til að halda sjó. Meirihlutinn hefur eyrnamerkt 25,4 milljarða í arð á næsta kjörtímabili, eða sem nemur tæpum 440 þúsund krónum á heimili í Reykjavík. Þessum peningum mætti skila beint í vasa útsvarsgreiðenda með samsvarandi lækkun þjónustugjalda Orkuveitunnar.


Starfsfólki Reykjavíkurborgar hefur fjölgað um 20% á kjörtímabilinu, og 60% tekna borgarinnar renna rakleiðis í launakostnað. Þrátt fyrir það er mannekluvandi á leikskólunum, snjómokstri er ekki sinnt, auk þess sem dregið hefur verið úr tíðni götuþrifa í valdatíð borgarstjóra. Borgin okkar ber þess því miður merki.


Eftir tveggja áratuga nánast óslitna valdasetu er kominn tími til að borgarstjóri verði dæmdur af verkum sínum. Niðurstaðan verður varla önnur en sú að tími sé kominn að gefa núverandi meirihluta frí.


Nauðsynlegt er að hrinda af stað kerfisbreytingum í skólakerfinu. Við þurfum sannarlega byltingu í almenningssamgöngum, en þó á fjárhagslega traustum grunni. Það er lífsnauðsyn að taka til hendinni í fjármálum borgarinnar. Og síðast en ekki síst þarf að tryggja sómasamlega umhirðu í borginni okkar.


Við þurfum borgarstjóra sem talar minna, en framkvæmir meira. Við þurfum Reykjavík sem virkar.


Höfundur er oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík

Kommentare


bottom of page