top of page

Ungt fólk á húsnæðismarkað

Það er húsnæðisskortur í Reykjavík. Skorturinn hefur verið viðvarandi og endurspeglast í mikilli verðhækkun íbúða. Svo mæta megi þörf fyrir íbúðir, áætla Samtök iðnaðarins að byggja þurfi 45 þúsund íbúðir á höfuðborgarsvæðinu fyrir árið 2040.


Sjálfstæðisflokkurinn vill að Reykjavík verði besti búsetukosturinn. Samkeppnishæf borg á innlenda sem alþjóðlega vísu. Lausn húsnæðisvandans verður mikilvægur liður á þeirri vegferð. Sjálfstæðis-flokkurinn ætlar að auka lóðaframboð í Reykjavík og tryggja að byggðar verði að jafnaði 2.000 íbúðir árlega næsta kjörtímabil. Það mun koma jafnvægi á húsnæðismarkaðinn og draga úr verðhækkunum.


Húsnæðisvandinn hefur bitnað hvað mest á ungu fólki. Fjöldi ungs fólks á aldrinum 25-29 ára sem enn býr í foreldrahúsum hefur stóraukist síðustu tvö kjörtímabil. Eftirspurn eftir hagkvæmum einingum fyrir ungt fólk hefur ekki verið mætt. Eingöngu eru byggðar svokallaðar lúxusíbúðir sem ekki henta fyrstu kaupendum, og henta raunar mjög þröngum kaupendahópi. Helstu þörfum á íbúðamarkaði hefur ekki verið mætt. Þessu ætlum við að breyta.


Markaðsrannsóknir á húsnæðismarkaði sýna breyttar þarfir nútímans. Flestir kjósa minni en vel skipulagðar einingar. Slíkar eignir, byggðar með hagkvæmni að leiðarljósi, myndu henta fyrstu kaupendum á húsnæðismarkaði vel. Við viljum svara þessari þörf. Hér þarf aukið samtal ríkis og borgar um einföldun regluverks svo byggja megi með hagkvæmum hætti.


Skortur á lóðum hefur haldið aftur af vexti í framboði nýrra íbúða. Þéttingarstefna núverandi meirihluta í miðborginni hefur gengið of nærri íbúum hverfisins. Eingöngu er byggt á dýrum reitum og af miklum gæðum. Verðmiðinn hentar ungu fólki illa. Við viljum þétta byggð, en við viljum þétta hana í fleiri hverfum, af virðingu við íbúa og umhverfi.


Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík hyggst úthluta hagstæðum lóðum í Örfirisey og á BSÍ reitnum til byggingar lítilla og hagkvæmra eininga fyrir fyrstu kaupendur. Við viljum gefa ungu fólki kost á að búa vestarlega í borginni og þurfa ekki að reiða sig á bifreiðar öllum stundum. Við viljum styðja betur við ungt fólk og aðstoða það við fyrstu skref inn á húsnæðismarkað. Við viljum gera betur.


Höfundur skipar 2. sætið á lista Sjálfstæðisflokksins í ReykjavíkComments


bottom of page