top of page

Ungt fólk vill búa í frjálsu samfélagi. Nútímalegri og samkeppnishæfri borg um lífsgæði og tækifæri. Lifandi borgarhlutum með þjónustu í seilingarfjarlægð – þar sem innkaupin geta farið fram hjá kaupmanninum á horninu.


Reykjavíkurborg hefur með aðalskipulagi lagt áherslu á dagvöru- og matvöruverslanir innan hverfa. Þannig megi skapa sjálfbær hverfi sem ýta undir fjölbreyttara mannlíf, styðja við vistvænar samgöngur og létta á umferðarálagi.


Áfengi er algeng neysluvara og áfengisinnkaup hluti af neyslumynstri borgarbúa. Illa staðsettar áfengisverslanir ríkisins leiða til ferða utan hverfis til áfengiskaupa. Í Reykjavík eru átta vínbúðir og tæplega 16.200 íbúar um hverja búð. Til samanburðar eru 2.600 íbúar í baklandi vínbúðarinnar í Hveragerði. Vínbúðirnar eru ekki markvisst staðsettar í grennd við þjónustukjarna hverfanna og vinna því gegn markmiðum aðalskipulags um sjálfbæri hverfi.


Í dag fer áfengissala fram á einokunarmarkaði. Helstu rökin með einokun ríkisins á áfengissölu byggja á lýðheilsusjónarmiðum. Þar virðist gleymast að ríkiseinokun er ekki besta leiðin til að lágmarka skaðleg áhrif áfengisneyslu. Undanfarin ár hefur aðgengi að áfengi aukist með fjölgun áfengisverslana og lengdum opnunartíma. Samt sem áður hefur áfengisneysla ungmenna dregist verulega saman. Það er afleiðing af árangursríkustu leiðinni – forvarnarstarfi – ekki takmörkun á einstaklingsfrelsi og atvinnufrelsi.


Reynslan af íslenskum smásölumarkaði hefur sýnt að aukið frelsi í verslunarrekstri stuðlar að kjarabótum fyrir neytendur – enda einkaaðilar betur til þess fallnir að stunda atvinnurekstur en hið opinbera. Hið opinbera ætti því ávallt að láta af rekstri sem einkaaðilar geta sinnt með hagkvæmari hætti.


Aukið frelsi í smásöluverslun með áfengi mun styðja hverfisverslun og efla nærþjónustu í hverfum borgarinnar. Slík þróun myndi samræmast markmiðum aðalskipulags um sjálfbær hverfi og skapa hverfisvætt umhverfi daglegrar verslunar. Ég skora á þingmenn að tryggja aukið frelsi á áfengismarkaði svo einfalda megi leit fólks að algengri neysluvöru og efla borgarhverfin í átt að aukinni sjálfbærni.


Hildur Björnsdóttir

Borgarfulltrúi í Reykjavík


Comentários


bottom of page