Fasteignaskattar á íbúðarhúsnæði í Reykjavík hækkuðu um 21 prósent um áramót. Fasteignaskattar á sérbýli hækkuðu um 25 prósent. Þetta er umtalsvert meiri hækkun en tilkynnt var um fyrir ári síðan og talsvert meiri hækkun en áætlanir borgarinnar gerðu ráð fyrir.
Hækkanir á fasteignamati leiða óhjákvæmilega til skattahækkana á heimili og fyrirtæki. Meðal fasteignamat íbúðarhúsnæðis í Reykjavík er 53,5 milljónir en verður með hækkuninni 64,7 milljónir. Að jafnaði munu því fasteignaskattar á meðalíbúð í Reykjavík hækka um rúmlega 20 þúsund krónur árlega. Þetta kemur fram í útreikningum hagfræðideildar Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.
Fasteignamat atvinnuhúsnæðis hækkar um 10,2% á landinu öllu. Þetta þýðir samsvarandi skattahækkun á atvinnulíf, án þess að hækkuninni fylgi aukin þjónusta til fyrirtækjanna í borginni. Í erindi Félags atvinnurekenda til sveitastjórna segir að með hækkuninni muni þrír milljarðar bætast við skattbyrði atvinnulífsins árlega. Skoraði félagið á sveitarfélögin að lækka álagningarhlutföll með samsvarandi hætti.
Á fyrsta borgarstjórnarfundi nýs kjörtímabils lagði Sjálfstæðisflokkur til lækkun fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði og íbúðarhúsnæði fyrir árið 2023. Með lækkuninni yrði brugðist við gríðarlegri hækkun fasteignamats. Sjálfstæðisflokkurinn stendur nefnilega með fólki og fyrirtækjum í borginni þegar skóinn kreppir. Við viljum draga úr álögum – og tryggja sanngjarna skattheimtu í Reykjavík. Meirihlutinn hafnaði tillögunni.
Viðbrögð nágrannasveitarfélaga við hækkuðu fasteignamati voru aftur á móti önnur – þar voru álagningarhlutföll lækkuð svo koma mætti til móts við hækkanir. Reykjavíkurborg er því eina stóra sveitarfélagið sem lætur fordæmalausa hækkun fasteignamats leggjast af fullum þunga á þegna sína. Sífellt seilst dýpra í vasa skattgreiðenda.
Eitt af lykilatriðum þess að efla samkeppnishæfi borgarinnar er að lækka skatta á einstaklinga og fyrirtæki. Í dag innheimtir Reykjavík hæsta útsvar og hæstu fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði allra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Við erum í lifandi samkeppni við erlendar borgir og innlend sveitarfélög um fólk og fyrirtæki. Við verðum að gera betur.
Hildur Björnsdóttir
Oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík
Comentarios