HELSTU ÁHERSLUR
Frelsi og val í samgöngum
Unnið verði að innleiðingu endurskoðaðs samgöngusáttmála sem tryggir fjölbreytta valkosti í samgöngum með almenningssamgöngum,
stofnvegaframkvæmdum, ljósastýringum og hjólastigum.
15 mínútna hverfi
Öll hverfi borgarinnar verði þróuð í átt að sjálfbærni, svo hægt verði að nálgast helstu verslun og þjónustu í 15-20 mínútna göngufæri innan hverfis.
Fleiri úrræði í kjölfar fæðingarorlofs
Unnið verði að því að tryggja fjölskyldum úrræði fyrir börn sín í kjölfar fæðingarorlofs. Fjölga þarf dagforeldrum og leikskólaplássum fyrir börn frá 12 mánaða aldri. Boðnar verði heimgreiðslur og fleiri fjölbreyttar lausnir.
Betri grunnskólar
Reykjavíkurborg setji sér það langtímamarkmið að koma grunnskólum borgarinnar í fremstu röð, svo kerfið mælist meðal 10 bestu grunnskólakerfa innan OECD árið 2040.
Daggæsla á vinnustöðum
Borgin veiti stærri vinnustöðum stuðning og sveigjanleika til að opna daggæsluúrræði fyrir börn starfsmanna. Þannig megi styðja betur við foreldra sem eiga í erfiðleikum með að komast aftur á vinnumarkað í kjölfar barneigna.
Lægri fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði
Fasteignaskattar á atvinnuhúsnæði eru hærri í Reykjavík en nágrannasveitarfélögum. Þessi háa skattlagning dregur úr samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs og getu fyrirtækja til að skapa störf og verðmæti.
Sundabraut í einkaframkvæmd
Sundabraut er mikilvæg samgöngubót fyrir höfuðborgarsvæðið. Ráðist verði í lagningu Sundabrautar í einkaframkvæmd tafarlaust.
Valkostir í velferðarþjónustu
Mikilvægt er að fólk eigi fjölbreytta valkosti í velferðarþjónustu. Með stuðningi við einkaframtakið og fjölbreytt rekstrarform má auka frelsi, fjölga valkostum og mæta margbreytilegum þörfum.
FABLAB í hvert borgarhverfi
Mikilvægt er að skólakerfið mæti þörfum framtíðarinnar og búi börn undir fjórðu iðnbyltinguna. FABLAB í öllum borgarhverfum myndu efla sköpunargáfu barna og færni þeirra í tæknigreinum.
Stuðningur við sjálfstæða skóla
Borgin greiði sama framlag með öllum börnum í skólakerfinu, óháð því hvort þau sæki borgarrekinn eða einkarekinn skóla. Þannig mætti komast hjá skólagjöldum og tryggja öllum börnum jöfn tækifæri til að velja skóla við hæfi, óháð efnahag foreldra.
Verndun grænna svæða
Mikilvægt er að verja grænu svæði borgarinnar. Elliðaárdal mætti stækka og þróa áfram sem enn öflugra útivistarsvæði - Central Park Reykjavíkur.
Aukið vægi list- og verkgreina
Stórauka þarf vægi list- og verkgreina í grunnskólum borgarinnar. Það er liður í því að skapa jöfn tækifæri fyrir öll börn að þroska hæfileika sína og skapa úr þeim tækifæri og verðmæti.
Heilsuefling eldri borgara
Reykjavíkurborg taki þátt í sama átaki og nágrannasveitarfélögin um heilsueflingu eldri borgara. Hefur átakið sýnt jákvæð tengsl milli reglulegrar hreyfingar og aukinna lífsgæða á efri árum.
Sala fyrirtækja í samkeppnisrekstri
Hið opinbera á ekki að vera þátttakandi á samkeppnismarkaði. Réttast væri að borgin seldi fyrirtæki í sinni eigu sem eru í samkeppnisrekstri.
Íbúðabyggð í Örfirisey og Keldum
Í Örfirisey og á Granda hefur þegar skapast blómleg verslunar- og veitingaflóra. Það eina sem vantar er íbúðabyggð. Keldnalandið má jafnframt skipuleggja í þágu blandaðrar byggðar, með fjölbreyttum húsakostum og ólíkum atvinnutækifærum.
Borg sem fagnar einkaframtaki
Reykjavíkurborg þarf að tryggja einfaldara og sveigjanlegra regluverk - og vinveitt umhverfi fyrir þá sem vilja sækja fram.
Fleiri heitir stígar
Ráðist verði í víðtæka upphitun göngu- og hjólastíga í Reykjavík. Vegna íslenskrar veðráttu þurfum við að gera betur fyrir gangandi og hjólandi. Til upphitunar er tilvalið að nýta hreina íslenska orku og/eða affalsvatn.
Lifandi hverfiskjarnar
Víða um borg standa hverfiskjarnar sem margir muna fífil sinn fegurri. Borgin getur með skipulagi og stuðningi ýtt undir aukið líf í kjörnunum og öflugri þjónustu við hverfin.
Húsdýragarður haldi aðeins húsdýr
Húsdýragarðurinn haldi ekki villt dýr, heldur aðeins dýr sem þrífast vel við íslensk skilyrði og aðstæður í garðinum.
Borgarfulltrúum verði fækkað úr 23 í 15
Árið 2018 fjölgaði borgarfulltrúum úr 15 í 23. Fjölgunin var kostnaðarsöm og hefur aukið á flækjustig innan borgarkerfisins. Réttast væri að fækka þeim aftur.