top of page

Aldursvænsta borg í heimi!

Þjóðin er að eldast. Fólk lifir lengur og mannkynið í heild verður sífellt eldra. Það gildir í nær öllum löndum, efnamiklum sem efnalitlum - borgum og bæjum, stórum sem smáum. Lýðfræðin gefur til kynna að framundan sé fordæmalaust tímabil fjölgunar eldri borgara. Íbúar Reykjavíkur eru þar engin undantekning.

Öldrun þjóðar á sér ýmsar birtingarmyndir og kallar á margvíslegt viðbragð. Til að mynda eykst þörfin fyrir ólík búsetu- og þjónustuúrræði ár frá ári. Jafnframt birtast aðrar kröfur meðal þeirra sem nú eldast, en ríktu meðal kynslóðanna sem á undan komu. Hækkandi lífaldri fylgir bætt heilsa um lengri aldur og auknar kröfur um spennandi lífsstíl, afþreyingu, félagsstarf og tómstundir. Fólk vill geta spilað golf, farið í skíðaferðir, byggt upp sumarhús og ferðast um heiminn. Kynslóð eftirstríðsáranna hefur að miklu leyti skapað þau lífsgæði sem við búum við í dag - þeirri kynslóð þurfum við sem yngri erum að mæta með nýrri hugsun og nýsköpun í öldrunarúrræðum.

Vitanlega á höfuðborgin að taka forystu í málaflokknum - við eigum að stefna að því að verða aldursvænsta borg heims. Í þeim efnum duga engin vettlingatök því ef fram fer sem horfir mun ríkja verulegur húsnæðis- og þjónustuskortur fyrir eldra fólk áður en langt um líður. Borgin þarf að tryggja nægt lóðaframboð fyrir einkaframtak að hefja umfangsmikla uppbyggingu fjölbreyttra búsetukosta fyrir eldri kynslóðir - þar sem miðlæg þjónusta og afþreying er fyrir hendi. Barir, kaffihús, veitingahús og líkamsrækt í göngufjarlægð - bókasöfn, almenningsrými og blómlegir garðar. Öruggar gönguleiðir og aðgengi að útivist. Möguleikarnir eru margvíslegir.

Eldri kynslóðir þessa tíma og seinni tíma eru engin afgangsstærð. Vel menntaðar, víðförlar og tæknilæsar munu þessar kynslóðir þekkja sín réttindi og hafa sterka skoðun á æskilegum lífsgæðum efri áranna. Reykjavíkurborg þarf að koma til móts við óskir og væntingar þessa hóps - fyrst með því að hlusta á þeirra þarfir og svo með því að framkvæma.


Hildur Björnsdóttir






bottom of page